149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:11]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Við höfum nú lokið meðferð á fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 þar sem er í góðu jafnvægi verið að auka útgjöld til ýmissa málaflokka, til þeirra málaflokka sem við þurfum að hlúa að og bæta um betur í. Ég ætla ekki að standa í þessum ræðustóli og fagna 5% útgjaldaaukningu. Það er ekki í mínu eðli að gera það en hún er nauðsynleg vegna þess að við höfum orðið sammála um þessa stefnu.

Hér hefur stjórnarandstaðan komið upp og reynt að bora á þetta göt. Hún er fullkomlega ósamstæð í umræðu sinni um fjárlagafrumvarp og fjárlög næsta árs. Það er góðs viti fyrir þjóðina að sjá þá kjölfestu sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sýnir hér við samþykkt þessa fjárlagafrumvarps. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)