149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[15:23]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra bretti upp ermar og kom þeim lagagrundvelli í rétt horf sem lýtur að Bankasýslu ríkisins. Það er athyglinnar virði að ráðherra segir að menn voru sammála og að lagatextinn færi kannski ekki saman við raunveruleikann og ég veit ekki hvað og hvað, en staðreyndin er sú að frá því sá tími rann upp sem 9. gr. kvað á um að Bankasýslan skyldi lögð niður eigi síðar en fimm árum eftir að hún var sett á laggirnar, samanber lög nr. 88/2009, hefur skapast lagalegt tómarúm. Það var í rauninni enginn lagagrundvöllur fyrir stofnunina til að vera starfrækt á þessu tímabili og því stendur enn þá eftir spurningin um það á hvað lagagrunni þeir gjörningar byggja sem hafa verið gerðir í nafni Bankasýslunnar á þessum tíma.

Það er ánægjulegt að fella á 9. gr. burt, það er það sem ákvæðið felur í sér, og koma með opið ákvæði sem gefur heimild til þess að hún sé bara starfandi þangað til að talið er að hún hafi lokið markmiði sínu, Og það er líka athyglinnar virði að það eru aðallega eignarhlutar ríkisins sem hún heldur utan um, það eru bankarnir okkar, 98,2% í Landsbankanum og allur Íslandsbanki og svo eitthvað í sparisjóðum. Það er athyglinnar virði að sjá að hér þurfi að vera sex einstaklingar, bæði stjórn og þriggja manna starfshópur Bankasýslunnar, til að halda utan um þessa eignarhluti okkar og hversu lengi það verður er spurning og hver kostnaðurinn er, það á eftir að koma í ljós.