149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka að það er ekki verið að lækka veiðigjöld. Það er verið að leggja fram mál sem gengur út á það að afkomutengja veiðigjöld í rauntíma. Einhvers staðar verðum við að draga þá línu. Það er bara þannig. Þess vegna er, í bráðabirgðaákvæði fyrir næsta ár, höfð önnur aðferðafræði þar sem veiðigjaldanefnd stillir af miðað við afkomu undanfarinna ára fast gjald fyrir hverja tegund. Síðan verður þetta frumvarp virkt árið 2020 þegar ríkisskattstjóri getur unnið með þær upplýsingar sem frumvarpið sýnir fram á að vinna eigi með til að afkomutengja veiðigjöld. Hv. þingmaður Viðreisnar verður bara að fara að horfast í augu við að það er verið að stilla þetta af miðað við afkomu og afkoma greinarinnar sveiflast til.

Það liggja fyrir gögn um að afkoma þessara litlu og meðalstóru fyrirtækja hefur verið erfið vegna þess að miðað var við afkomu mjög langt aftur í tíma en ekki í rauntíma. Mörg þessara fyrirtækja munu ekki þola annað ár að óbreyttu. Það er bara staðreynd sem menn þurfa að horfast í augu við.

Í upphafi umræðunnar gerði ég grein fyrir því að ég hefði fyrirvara á þessu frumvarpi og að ég vildi láta skoða það sérstaklega að reyna að mæta erfiðleikum lítilla og meðalstórra fyrirtækja með því að styrkja frítekjumarkið. Við kölluðum inn í nefndina upplýsingar frá ýmsum aðilum. Þar á meðal liggur þessi Deloitte-skýrsla fyrir fyrir þá landshluta sem ég nefndi hér, Vesturland og Vestfirði, og fleiri gögn hafa bæst við milli 2. og 3. umr. varðandi Deloitte-úttekt á stöðu fyrirtækja og umsögn Byggðastofnunar. Fleira mætti telja sem styður það að meiri hlutinn lagði til tillögu um að styrkja frítekjumarkið sem hefur verið gert. Það er auðvitað mjög gott mál til þess að við fáum ekki fjöldagjaldþrot í framhaldinu.