149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um veiðigjöld. Málið hefur lengi verið til umræðu hér og hlotið allnokkra umræðu í meðhöndlun þingsins nú í haust. Mér finnst oft ágætt, þegar farið er í svona mál, að bakka aðeins: Um hvað snýst þetta mál í raun? Í umræðum um veiðigjöld í gegnum tíðina hefur málið verið flækt óþarflega mikið í mínum huga. Talað er um sanngjarna hlutdeild þjóðarinnar í auðlindarentu og síðan er karpað um það lengi vel hvað sé auðlindarenta og hvernig hún sé frábrugðin annarri rentu o.s.frv.

Mér finnst þetta í einföldu máli svona vaxið: Þetta er hráefnisgjald. Við erum öll sammála um að við erum með fiskveiðistjórnarkerfi sem byggist á sameign þjóðarinnar á auðlindinni, að við eigum öll fiskinn í sjónum sameiginlega en við úthlutum síðan veiðileyfum eða veiðiheimildum til útgerðanna til að nýta þessa sameiginlegu auðlind okkar og fyrir þær heimildir skuli útgerðin greiða sanngjarnt gjald. Þetta er þess vegna hráefnisgjald og setjum það aðeins í það samhengi að útflutningsverðmæti sjávarafurða á undanförnum árum hefur verið 200–240 milljarðar kr. á ári. Við erum hér að tala um hráefnisgjald fyrir þessa sameiginlegu auðlind okkar, sem skilar þessum 200–240 milljörðum á ári, upp á u.þ.b. 7 milljarða. Það eru 3% af verðmæti sjávarafurða til útflutnings. Það er það gjald sem útgerðinni finnst vera allt of hátt fyrir aðgang að þessari auðlind, fyrir að geta á endanum skapað þessi verðmæti. Það er kannski ágætt að hafa í huga að engin atvinnugrein, alla vega engin atvinnugrein í einkarekstri, hefur aðgang að ókeypis hráefni til að skapa úr verðmæti. Það þekkist ekki annars staðar.

Það er ágætt að hafa það í huga að það er mjög algengt að horfa upp á hráefniskostnað, hráefnishlutfall, upp á 20–30%. Í þessu samhengi eru það 3% sem er nú sennilega ekki mjög hátt nema síður sé. Það er merkilegt að horfa upp á hægri menn, sem ættu að aðhyllast einhvers konar markaðsfyrirkomulag í þessu öllu saman, verða yfir sig hneykslaða þegar farið er að tala um markaðslegt fyrirkomulag við verðlagningu þessa aðgangs. Dytti okkur í alvöru í hug að hafa þetta fyrirkomulag gagnvart einhverri annarri atvinnugrein?

Veltum því fyrir okkur. Ef við værum að tala um nýtingu eðalmálma úr jörð, dytti okkur einhvern tímann í hug að aðgangur ætti nánast að vera ókeypis, að hráefnið sem slíkt væri verðlaust fyrir greinina, að það væri bara virðiskeðjan að koma gulli eða öðrum eðalmálmum til markaðar, þar lægi virðið en ekki í hráefninu sjálfu? Nei, ég held ekki. Við spreyttum okkur reyndar á því þegar kom að mögulegri nýtingu olíuauðlinda í íslenskri lögsögu. Þar tókum við ekki upp það fyrirkomulag sem hér er viðhaft heldur það einfalda fyrirkomulag að bjóða út nýtingarsamninga, eðlilega.

Ég velti þessu oft fyrir mér líka í öðrum atvinnugreinum. Sú var t.d. tíðin í byggingariðnaði að byggingarlóðir fengust fyrir nánast ekki neitt. Það var nóg til af þeim, þeim var úthlutað nánast án endurgjalds, greidd gatnagerðargjöld fyrir. Síðan þrengdist að í skipulagi og hvað gerum við þá? Við förum að sjálfsögðu og bjóðum út þessar lóðir til hæstbjóðenda. Þar fórum við ekki í sögulega byggingarreynslu eða úthlutuðum um ævarandi tíð þeim takmörkuðu gæðum sem byggingarlóðirnar voru orðnar byggt á hefðarreynslu. Það er í raun alveg magnað hjá flokkum sem aðhyllast markaðslausnir að leggjast gegn markaðslausnum þegar kemur að því að verðleggja veiðiheimildir, að verðleggja veiðigjöld. Það er ekki mikil trú á markaðshagkerfinu hjá þessum flokkum þegar þeir treysta markaðnum ekki til þess að verðleggja jafn einfaldan hlut og aðgangur að takmarkaðri auðlind er, að treysta ekki sjávarútveginum sjálfum til að ákvarða í útboðum það gjald sem greinin er reiðubúin að borga fyrir þennan markaðsaðgang. Þetta er ekkert annað. Það er í einföldu máli verið að greiða fyrir aðgang að auðlindinni. Það er verið að greiða fyrir aðgang að hráefninu sem við erum síðan öll sammála um, og stendur skýrum orðum í lögum um stjórn fiskveiða, að sé sameign þjóðarinnar og hún skuli fá eðlilegt og sanngjarnt gjald fyrir.

Ég hef ekki þá trú sem þessi ríkisstjórn virðist hafa, að fiskur í sjó sé nánast verðlaus, sé einskis virði, og hætta sé á því að fjöldagjaldþrot taki við í atvinnugrein sem ætlað sé að bjóða í þetta eða hvað þá að borga meira en 3% af markaðsverðmæti þessa sama afla. Það er það sem mér blöskrar mest í þessari umræðu. Ég verð eiginlega að segja eins og er að þegar maður hlustar á málflutning meiri hlutans finnst mér eins og verið sé að reyna að hafa mann að fífli. Það er verið að blekkja menn vísvitandi með þeim rökum sem hér eru færð upp á borð um af hverju sé svona brýnt að afgreiða þetta mál núna, hvað það sé sem sé svo stórhættulegt fyrir útgerðina í landinu ef við tökum ekki strax á og lækkum þessi veiðigjöld. Við skulum alveg tala skýrt um það, það er meginútgangspunktur þessara breytinga, það er ástæðan fyrir því að meiri hlutinn knýr svo fast á um að keyra þetta mál í gegn í bullandi pólitískum ágreiningi, að það er komið að gjalddaga á veiðigjöldum sem reiknast af mjög góðu ári sem útgerðin naut góðs af í formi hás afurðaverðs og hagstæðs gengis en vill núna ekki greiða veiðigjaldið sem hefði átt að greiðast af þessu hagstæða ári en naut vissulega afkomunnar.

Ef við horfum á hvaða tveir punktar hafa helst verið í umræðunni hér þá er það annars vegar að gengið sé allt of nærri greininni verði ekki gerðar breytingar á útreikningi veiðigjalda sem að óbreyttu hefði orðið um 11–12 milljarðar, að okkur er sagt. Í öðru lagi að afkoma lítilla og meðalstórra útgerða sé mun verri en stærri útgerða og því verði að bregðast við með sérstakri lækkun fyrir þá tegund útgerðar. Það má segja ansi margt um þetta en það er ágætt að hafa í huga að verðmæti sjávarafurða á þessu ári hefur aukist umtalsvert. Verðmæti fyrstu 11 mánaðanna eru 20% meiri en á sama tíma í fyrra sem bendir ótvírætt til þess að lakari afkoma sjávarútvegs á síðasta ári, samanborið við árið 2016 eða 2015, svo að dæmi sé tekið, stafi fyrst og fremst af löngu sjómannaverkfalli í upphafi síðasta árs.

Það skyldi engan undra að afkoma greinarinnar hafi látið á sjá eftir langt sjómannaverkfall. Það er hins vegar ekki hlutverk ríkisins, það er ekki hlutverk þjóðarinnar, að taka á sig þann kostnað í formi lægri veiðigjalda, enda myndi ég ætla að verðmæti veiðiheimildanna sjálfra, kvótans, hafi ekki breyst mikið þrátt fyrir það verkfall. Það vill svo til að verðmæti afurðanna tók ekkert mikið högg á sig og á þessu ári sjáum við fram á áframhaldandi hagfellda þróun í sjávarútvegi, bæði varðandi afurðaverð og ekki síður gengisþróun nú á síðari hluta ársins, sem skýrir það af hverju við erum með 20% aukningu í verðmæti sjávarafurða á milli ára.

Það verður eitthvað svo innantómt bull, vil ég segja, þegar verið er að barma sér yfir því að útgerðin ráði ekki við að greiða á næsta ári af afkomu ársins 2016 af því að árið 2017 hafi verið svo slæmt. Ég get alveg fullvissað menn um það, telji menn sig ekki hafa reynslu af því, að það greiða afskaplega fá fyrirtæki reikningana sína með tveggja ára gamalli afkomu. Það er auðvitað afkoma þessa árs og næsta árs sem ræður greiðslugetu útgerðarinnar sem hér er verið að tala um, ekki afkoma ársins 2017. Það er fráleit afsökun að ætla að nota afkomu ársins 2017 til að knýja í gegn þær breytingar sem hér er verið að tala um í bullandi pólitískum ágreiningi.

Varðandi seinni punktinn, varðandi afkomu lítilla og meðalstórra fyrirtækja, þá höfum við hlustað á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sjálfan tala um það í þessum ræðustól að engin gögn séu til í ráðuneytinu sem bendi til þess að um sé að ræða stærðartengdan afkomuvanda. Hann geti vissulega verið háður ákveðnum útgerðarflokkum, hann geti verið háður landshlutum að hluta en það séu einfaldlega til fjölmörg dæmi um lítil fyrirtæki ekkert síður en stór sem séu með mjög vel viðunandi afkomu eða þaðan af betra. Það eigi ekki við rök að styðjast að þetta sé stærðartengdur vandi.

Mér finnst þess vegna að ekki sé hægt að orða það öðruvísi en svo að það sé verið að ljúga að manni þegar þessum rökum er fleygt fram að hér séum við með atvinnugrein í einhverri nauð, sem verði að bregðast við í mikilli skyndingu til að hún ráði við reikninginn, ráði við veiðigjöldin á næsta ári, árinu 2019, þegar þessi veiðigjöld koma til greiðslu.

Tökum fleiri dæmi um þetta sama. Horfum á hvernig greinin sjálf metur framtíðarhorfur sínar. Ég get nefnt þrjú dæmi, kaup sjávarútvegsfyrirtækja í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum fyrir á fimmta tug milljarða á þessu ári einu. Þar er fyrst og fremst verið að meta veiðiheimildir viðkomandi fyrirtækja býsna góðu verði. Það endurspeglar ekki vantrú á framtíðarhorfur greinarinnar að greinin ráðist í svo umfangsmiklar fjárfestingar í sjálfri sér. Ég get ekki séð hvernig það á að undirstrika slæmar afkomuhorfur að Brim ráðist í kaup á HB Granda, að í Skagafirði séu menn reiðubúnir að kaupa þriðjungshlut í Vinnslustöðinni fyrir á annan tug milljarða eða þar um bil. Ég get heldur ekki séð að það endurspegli vantrú á framtíðarhorfur greinarinnar að greinin sjálf hafi fjárfest á síðasta ári fyrir liðlega 60 milljarða. Ég get heldur ekki séð að það endurspegli slæma afkomu greinarinnar.

Nú heyri ég mikið fuss og svei hér úr hliðarsal, en staðreyndin er sú að sjávarútvegurinn hefur verið að fjárfesta af miklum myndarskap í fastafjármunum sínum, endurnýjað togara, framleiðslutæki og svo mætti áfram telja. Allt sýnist mér það endurspegla einmitt trú greinarinnar sjálfrar á góða afkomu og góðar horfur til lengri tíma litið. Fyrirtæki fjárfesta ekki í eigin atvinnugrein af svo miklum myndarskap nema hafa trú á því sem þar er fram undan og það er alveg augljóst, þegar við horfum á sjávarútveginn, að þar er mikil og heilbrigð trú á horfum og forsendum greinarinnar þegar horft er fram á veginn.

Öll þessi röksemdafærsla um það að greinin ráði ekki við sanngjarnt og eðlilegt veiðigjald — ég get ekki gefið mikið fyrir slíkan málflutning. Staðreyndin er einfaldlega á endanum sú að á sama tíma og ríkisstjórnarflokkarnir leggja svona mikla áherslu á að lækka veiðigjöldin var ekki hægt að tryggja ellilífeyrisþegum og öryrkjum kaupmáttaraukningu á næsta ári. Það þurfti að skera niður áform um uppbyggingu hjúkrunarrýma, það var ekki hægt að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila. Það var ekki hægt að taka sálfræðiþjónustu undir sjúkratryggingar. Það var ekki hægt að tryggja SÁÁ nægilegt rekstrarfé. Það var ekki hægt að fjármagna sjúkrahúsin á landsbyggðinni með fullnægjandi hætti. Það var ekki hægt að hefja afnám krónu á móti krónuskerðingar hjá öryrkjum. Þetta mál er einfaldlega skýrasta birtingarmyndin á forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar, frú forseti. Hún er einfaldlega ekki betri en þetta. Það er það sem þessir ríkisstjórnarflokkar eru hér að reyna að breiða yfir, að hér ráða sérhagsmunir för, ekki hagsmunir almennings. Þess vegna liggur þessum ríkisstjórnarflokkum svo mikið á að klára þetta mál. Þess vegna vannst ekki tími til þess að reyna að ná einhverju þverpólitísku samráði og samstarfi um framtíðarfyrirkomulag á gjaldtöku fyrir þessa sameiginlegu auðlind þjóðarinnar. Það er þess vegna sem við í minni hlutanum leggjum til að við tökum okkur einfaldlega lengri tíma, að við reynum og freistum þess einu sinni að ná þverpólitísku samkomulagi um það hvernig best verði staðið að þessari gjaldtöku til lengri tíma litið og að við frestum þessari vitleysu um eitt ár að minnsta kosti.