149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:24]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Það eru margar áhugaverðar vangaveltur hjá hv. þingmanni, ég vona að hann fyrirgefi mér að ég muni kannski ekki ná að fara með tæmandi hætti yfir þetta allt saman.

Ég held að vandi þessa kerfis liggi kannski í því að sjálfsagt óraði engan fyrir hvaða verðmæti yrðu í veiðiheimildunum, í kvótanum sjálfum þegar kerfinu var hleypt af stokkunum á sínum tíma. Svo hafa menn allar götur síðan, eftir að ljóst varð að í þessu fólust mikil verðmæti, þverskallast við að reyna að gera einhverjar eðlilegar breytingar á því. Mér finnst alltaf jafn fyndið að hlusta á flokka sem tala fyrir markaðslausnum, segjast vera markaðshyggjuflokkar, þvertaka algerlega fyrir að beita einhverjum markaðsleiðum á þessu sviði. Enda er það náttúrlega þannig að þeir hinir sömu flokkar hafa aldrei getað sætt sig við það að ráða ekki niðurstöðunni. Markaðurinn er fínn svo lengi sem þeir fá að ráða því hvert þetta fer eða hvernig því er stýrt. Á endanum treysta þeir auðvitað ekki markaðnum til að taka ákvörðunina, það er bara þegar kemur að sölu á bönkum eða gömlu góðu helmingaskiptareglunni, eins og þeim leið sjálfsagt best með. Auðvitað treystu þeir ekki markaðnum til að taka þessa ákvörðun, það þurfti að stýra því hvert þetta allt færi. Núverandi fiskveiðistjórnarkerfi er ágætlega til þess fallið.

Þegar kemur að nýliðun í svona atvinnugrein er það auðvitað alltaf þannig að ríkjandi fyrirtæki, í hvaða atvinnugrein sem er, standa betur að vígi en þau sem eru að reyna að komast ný inn á markaðinn. Sérstaklega í svona fjármagnsfrekri atvinnugrein eins og sjávarútvegur er.

Það er engu að síður athyglisvert að ekki er hægt að sjá að það séu beinlínis nýir aðilar að koma fram á sjónarsviðið. Ég man hreinlega ekki eftir einu einasta dæmi í svipinn þar sem einhver nýr aðili hafi virkilega náð að fóta sig í sjávarútvegi. Við sjáum það alveg í öðrum greinum og það getur verið með ærnum tilkostnaði. Við sjáum WOW í fluginu, þrátt fyrir sterka stöðu Icelandair. Við höfum séð nýja aðila ryðja sér til rúms á smásölumarkaði, t.d. í matvöruverslunum. Það er vissulega erfitt og ríkjandi aðili er alltaf með sterka stöðu. En með því að bjóða út veiðiheimildirnar held ég að það myndi vissulega bæta möguleika nýrra aðila á að koma inn í atvinnugreinina.