149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna en hef nokkrar spurningar um það sem hv. þingmaður sagði. Þegar hv. þingmaður segir að um sé að ræða skref í rétta átt þá velti ég fyrir mér: Í áttina að hverju? Er það skerf í rétta átt að fara í 60% afslátt, ef afslátturinn yrði 80% værum við þá komin á leiðarenda? Eða hver er þessi rétta átt sem átt er við þarna?

Hv. þingmaður nefndi einnig hversu mikil auðlindagjöldin væru sem hlutfall af hagnaði á hverju svæði fyrir sig en í engu tilviki var það það íþyngjandi að veiðigjöldin ætu upp allan hagnaðinn. Er í raun ekki betra að hafa hagnað frekar en að hafa ekki hagnað? Það er það sem við höfum upplifað dálítið með þetta fiskveiðistjórnarkerfi á undanförnum áratugum að ýmis byggðarlög hafa glatað veiðiheimildum, hafa ekki neinn kvóta til að borga veiðigjald af. Það er augljóslega miklu verra en hafa veiðiheimild og borga allt upp í 82%, eins og það var hæst, af hagnaðinum. Það er engin atvinna þar sem þetta hefur horfið frá. Sérstök skattheimta umfram aðra, það er dálítið sem mig langar til að fjalla um. Er þetta skattheimta, veiðigjöldin? Er þetta ekki gjald af nýtingu auðlindar í eigu þjóðarinnar?