149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:56]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir. Veiðigjaldið eitt og sér setur ekki útgerðir á hausinn en það getur verið dropinn sem fyllir mælinn hjá mörgum hverjum, þar sem reksturinn er þungur. Þá er ég ekki að tala um, eins og áður hefur komið fram í ræðum, að fyrirtækin séu illa rekin heldur er samsetning útgerðarinnar bara þannig. Það hafa margir selt undanfarin ár út af þessu og samþjöppunin er gríðarleg og m.a. vegna hárra veiðigjalda. Það er staðreynd.

Um hagsmunatengsl og þá hugsanlega vanhæfni. Ég er sjálfur með litla útgerð og ég hef minnst haft áhyggjur af því núna vegna þess að sá útgerðarflokkur fær mjög góðan afslátt í þessu frumvarpi. Ég hef verið að tala um næstu útgerðarflokka þar fyrir ofan. Þeir eru mér ótengdir nema þeir eru mikið í mínu kjördæmi. Ef á að fara að ræða vanhæfi þá gætu kannski allir þingmenn þessa lands verið vanhæfir þegar við ræðum um tekjuskatta og annað slíkt. Ég tel mig ekki vanhæfan, og er ekki vanhæfur til að fjalla um þetta, geri það með reisn og töluverðu hæfi.