149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:58]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Fjölbreytt atvinnulíf á að vera okkur keppikefli. Því fleiri þróttmiklar greinar og fleiri öflug fyrirtæki á öllum sviðum sem við eigum, því betra. Það kemur öllum landsmönnum vel, hvort sem þeir búa á höfuðborgarsvæðinu eða vítt og breitt um landið. Fjölbreytni í atvinnulífinu er mest á höfuðborgarsvæðinu en mun minni fjölbreytni er á landsbyggðinni eðli málsins samkvæmt. Þar er einhæfni og fábreytni meginreglan þótt að sjálfsögðu séu þar á veigamiklar undantekningar. Það er ekki skynsamlegt í atvinnustefnu þjóðarinnar að einstök byggðarlög verði um of háð einu eða nokkrum einsleitum fyrirtækjum á sama sviði. Í því felst einfaldlega of mikil áhætta ef illa árar og slík samfélög eiga erfiðara með að laða til sín og halda í ungt og vel menntað fólk. Það ber feigðina í sér ef ekki tekst að endurnýja byggðirnar með nýjum fyrirtækjum og ungu fólki sem getur nýtt sér menntun sína við störf við hæfi og verið þátttakendur í blómlegu mannlífi.

Sjávarútvegurinn er mikilvæg atvinnugrein. Um það deilir enginn. Það er mikilvægt að búa greininni eins góð starfsskilyrði og unnt er. Skylda stjórnvalda er að búa henni jafnt og öðrum atvinnugreinum eins mikinn stöðugleika og þar með nauðsynlegan fyrirsjáanleika og hægt er. Það sem er í valdi stjórnvalda eru fyrst og fremst almennar leikreglur og efnahagsleg umgjörð. Hvort tveggja þarf til til að stuðla að sem jöfnustum og öruggustum hagvexti, lágri verðbólgu og eðlilegum vöxtum, og í því samhengi þarf síðast en ekki síst stöðugan gjaldmiðil.

Allt það sem hér var rakið er sjávarútveginum ekkert síður mikilvægt en öllum öðrum atvinnugreinum. Samtímis þessu verður að tryggja að eigandi auðlindarinnar, fiskimiðanna við landið, njóti þeirrar auðlindarentu sem honum ber, fái eðlilegt afgjald úr hendi þeirra sem fá heimild til að sækja fiskinn í sjóinn. Eigandi auðlindarinnar erum við öll saman, þ.e. fiskimiðin eru þjóðareign og um það held ég að við séum flest sammála. Fyrir tímabundinn aðgang að auðlindinni er sanngjarnt og eðlilegt að þeir sem ráða yfir veiðiheimildum greiði gjald sem endurspeglar raunverulegt verðmæti þess að hafa þennan tímabundna rétt og aðferðin til að finna úttektarverðmæti er að leita að markaðsvirði fyrir þessar veiðiheimildir til afmarkaðs tíma.

Við hjá Viðreisn höfum markað okkur stefnu í þessum efnum. Afgjaldið á að ráðast á opnum markaði. Með því vinnst tvennt, afgjaldið ræðst á hverjum tíma af getu og vilja útgerðanna til að afla sér veiðiheimilda á því verði sem markaðurinn setur og þar með er gjaldið einnig greitt í rauntíma. Nánar segir um þessi atriði í stefnu Viðreisnar undir yfirskriftinni Markaðsleið í sjávarútvegi tryggi sátt um greinina, með leyfi forseta:

„Viðreisn vill tryggja sátt um sjávarútveginn til framtíðar.

Í stað veiðileyfagjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári. Þannig fæst sanngjarnt markaðstengt afgjald fyrir aðgang að auðlindinni og umgjörðin um atvinnugreinina verður stöðug til frambúðar. Leiðin hvetur til hagræðingar og hámarksarðsemi þegar til lengri tíma er litið. Einnig opnast leið fyrir nýliðun. Afgjaldi fyrir nýtingarétt á auðlindinni verði að hluta til varið í þeim byggðum sem hafa orðið fyrir þungum búsifjum vegna tilfærslu kvóta.“

Það er þess vegna alveg skýrt hvað Viðreisn vill í þessum efnum. Allir flokkar hafa líkt og Viðreisn sett sér stefnu í þessum málaflokki. Mismikill samhljómur er í þessum stefnum en allar hafa þær að markmiði að tryggja öflugan sjávarútveg. Það er auðvitað gott að það grundvallarmarkmið eigum við þó sameiginlegt og þess vegna er mikilvægt að leita eins og kostur er að sátt milli stjórnmálaflokkanna um að ná þessu sameiginlega markmiði.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar er því miður ekki skref í þessa átt. Þess vegna lögðu Píratar, Samfylkingin og Viðreisn til að málinu yrði frestað og þess freistað að ná betra samkomulagi og gefa sér tíma út næsta ár. Því miður var frávísunartillaga flokkanna við þetta þingmál felld. Sömu leið fór varatillagan um að taka af tvímæli um að veiðigjaldið væri greitt fyrir veiðiheimildir til afmarkaðs tíma. Enn er þess freistað að ná fram sátt í málinu með því að leggja fram breytingartillögu um að halda óbreyttu kerfi veiðigjalda út næsta ár. Tímann sem þetta skapar er þá unnt að nota til að finna og bræða það saman sem sameiginlegt er í hugmyndum flestra flokkanna á Alþingi.

Rétt er að líta á stefnu nokkurra flokka og þeirra tillagna sem hafa verið lagðar fram í þessum efnum á liðnum árum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur markað sér sína stefnu og þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Hver útgerð býr að kvóta sem mælt er fyrir um af ráðherra sjávarútvegsmála, byggt á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. VG vill að kvótaúthlutun í núverandi mynd verði aflögð í skrefum og kvóta endurútdeilt á grundvelli hagsmuna samfélagsins, byggða í landinu og atvinnu. VG leggur sérstaka áherslu á eflingu strandveiða. Endurúthlutun felst annars vegar í tímabundinni ráðstöfun leyfa og skal að hluta vera bundin útgerðarformum og veiðiaðferðum, og hins vegar í uppboði, að hluta bundin svæðum landsins og sveitarfélögum og þeim aðilum boðið að skilgreina leiðir til úthlutunar. Við endurúthlutun veitir ríkið leyfi þar sem skýrt er kveðið á um eignarhald þjóðarinnar, að kvótinn sé óframseljanlegur og það veiðigjald sem rukkað verður.“

Í stefnu Framsóknarflokksins sem samþykkt var á 33. flokksþingi hans í apríl árið 2015 og hefur ekki verið breytt að ég best veit segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Auðlindir hafsins eru eign íslensku þjóðarinnar. Sjávarútvegur er ein af grundvallaratvinnugreinum þjóðarinnar og þýðing hans fyrir efnahag landsins er ótvíræð. Gæta verður þess að stoðir hans séu tryggar. Huga verður að nýliðun í sjávarútvegi og efla nýsköpun sem tækifæri til nýliðunar.

Veiðirétturinn skal vera eign ríkisins. Gera skal samninga um nýtingu réttarins gegn gjaldi. Fyrir þessa samninga ber að tryggja þjóðinni sanngjarnar tekjur. Gjaldtakan taki mið af gengi greinarinnar hverju sinni. […]

Skapa þarf sátt á meðal þjóðarinnar um það fyrirkomulag við stjórn fiskveiða til framtíðar.“

Makríll er nefndur sérstaklega í sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins og þar segir:

„Makríl þarf að hlutdeildarsetja (kvótasetja). Með því fæst aukin festa í veiðarnar með fyrirsjáanleika og tækifærum til hagræðingar í kerfinu. Í ljósi þess að þessum réttindum er úthlutað til einstakra aðila, og vegna fyrrnefndra tækifæra sem verða til vegna hagræðingar, er mikilvægt að sérstakt gjald verði tekið fyrir úthlutun makríls. Huga þarf að tækifærum minni skipa og báta til að efla veiðar á grunnslóð, þar sem aðstæður eru fyrir hendi.“

Forseti. Ekki verður annað séð en að margir sameiginlegir þræðir séu í stefnu margra flokka á Alþingi. Það er vafalaust hægt að ná mun meiri og betri sátt um þessi mál en frumvarpið og tillögur meiri hlutans gera ráð fyrir og það er mjög miður að ríkisstjórnin skuli ekki vilja grípa þetta það tækifæri sem felst í hugmynd Viðreisnar, Samfylkingarinnar, Pírata og Flokks fólksins um að fresta gildistöku þessa frumvarps um eitt ár og leita leiða til að ná betra samkomulagi.

Forseti. Ég skora að lokum á ríkisstjórnarflokkana að láta sér þetta tækifæri ekki úr greipum ganga, tækifæri sem ætti a.m.k. að fela í sér, ef eitthvað er að marka sjávarútvegsstefnu VG og Framsóknar sem ég vitnaði til hér framar í ræðunni, gullin tækifæri fyrir þessa tvo flokka til að vinna þeim sjónarmiðum sínum framgang í samvinnu við þá flokka sem standa að því að vilja fá málinu frestað og freista þess að ná enn betri sátt um það. Enn betri, sagði ég. Það er auðvitað engin sátt um það en það er hægt að ná sátt sem á endanum felur kannski ekki í sér að allir þykist hafa náð öllu sínu fram en ættu að geta gengið þokkalega sáttir frá borði. Það er gott fyrir samfélagið, það er gott fyrir pólitíkina og síðast en ekki síst er það mjög gott fyrir sjávarútveginn.