149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:30]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að fresta þessu máli af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi er nýfallinn dómur sem setur fyrirkomulag fiskveiðistjórnar í uppnám með tilheyrandi fjárútlátum fyrir þjóðina og er nú nóg samt. Svo verð ég að segja að ég sé ekki að við blasi þörfin á því að lækka veiðigjöld. Við erum mikið að hugsa um gjöld á þinginu þessa dagana. Ég hef þessa áráttu, og verð að biðja virðulegan þingheim afsökunar á því fyrir fram, að ég fer alltaf að hugsa um orðin sem vísa á veruleikann sem við erum að fást við. Hér er um að ræða tvö orð sem eru svo einkennilega lík en þó eru svo miklar veraldir þarna á milli. Það er annars vegar orðið veiðigjöld og hins vegar orðið veggjöld, næstum því alveg eins orð en þau vísa alveg hvort í sína áttina, orðið veiðigjöld vísar á viðleitni núverandi hæstv. ríkisstjórnar til þess að létta undir með auðugustu útgerðum landsins en orðið veggjöld vísar hins vegar á væntanlega viðleitni hæstv. núverandi ríkisstjórnar til að færa útgjöld til þjóðarinnar, beina kostnaði af framkvæmdum til þjóðarinnar.

Áður en ég settist á þing hitti ég að máli góðan vin minn og félaga til margra ára, fyrrum hv. þm. Mörð Árnason. Hann gaf mér mörg góð ráð um það hvernig ég skyldi haga mér á þingi og ég verð að játa að ég hef ekki að öllu leyti borið gæfu til þess enn að hlíta hans ráðum í einu og öllu en geri það vonandi fyrr eða síðar. Eitt af þeim ráðum sem hann gaf mér var að ef ég stæði í ræðustól og vissi ekki mitt rjúkandi ráð, vissi ekkert hverju ég ætti að svara, það væri bara augljóslega verið að reka mig á gat, sem er ekki erfitt, skyldi ég baða út höndunum og segja: Þetta eru ótrúlegar tölur, herra forseti. Þetta eru ótrúlegar tölur. Þá sagði Mörður að ég næði aftur einhverjum trúverðugleika. Þá færu allir að kinka kolli. Já, heyrðu, það er alveg rétt hjá honum, þetta eru sennilega alveg ótrúlegar tölur.

Nú ætla ég að hlíta þessu. Þó að enn sé ekki komið að því að það sé verið að reka mig gersamlega á gat ætla ég engu að síður að hagnýta mér þetta góða ráð félaga míns og vinar, Marðar Árnasonar, fyrrum hv. þingmanns, og segja í þessum ræðustól: Þetta eru ótrúlegar tölur. Því að það eru ótrúlegar tölur sem blasa við okkur. Hæstv. ríkisstjórn, þar sem m.a. sitja jafnaðarmenn, hyggur á 4 milljarða lækkun veiðigjaldanna.

Herra forseti. Við sem höfum talað hér gegn því að veiðigjöld verði lækkuð höfum ítrekað fengið að heyra að við séum ekki í þessum umræðum neitt að tala um veiðigjöld, heldur séum við alltaf að tala um fiskveiðistjórnarkerfið sem sé allt önnur Ella, nánast eins og þessi mál séu á einhvern hátt alveg fullkomlega aðskilin. Ég held að svo sé ekki. Ég held að þetta sé sama málið, ég held að þau verði ekki aðskilin. Ég held að þetta sé bara hvor hliðin á sömu myntinni. Ég held að þetta sé kannski ekki jafn flókið og tæknilegt úrlausnarefni og maður fær stundum að heyra og ég held að eins og við, hinir almennu borgarar, skiljum þetta mál og sjáum það snúist það um hvernig við einfaldlega högum samfélaginu. Ég held að þetta snúist um réttlæti. Ég held að þetta snúist um skiptinguna í samfélaginu, kannski eins og öll stjórnmál, hvernig við skiptum gæðum og byrðum í samfélaginu.

Mig langar í framhaldi af þessu að tala aðeins um sjálfbærni. Við fáum oft að heyra að þetta snúist um að standa vörð um sjálfbærustu fiskveiðar í heimi. Það er margt til í því að fiskveiðar eins og þeim er háttað hjá okkur séu á margan hátt sjálfbærar. Í sjálfbærnifræðum er yfirleitt talað um þrjár stoðir og þar er fyrsta stoðin, umhverfisstoðin, kannski sú mikilvægasta. Þegar kvótakerfið var innleitt var vissulega skotið undir það hinni umhverfislegu stoð, þ.e. dregið var úr ofveiði, stuðlað að vernd fiskstofnanna og ýtt undir sjálfbæra nýtingu á fiskstofnunum. En það er ekki nóg, það þarf líka að vera hin hagræna stoð, hin efnahagslega. Hún er líka til staðar. Þegar til verður framsal kvótans má segja að til verði arður og þá er skotið undir kerfið þessari efnahagslegu stoð.

En svo kemur þriðja stoðin. Til að hægt sé að tala um að eitthvert kerfi sé sjálfbært þarf þriðja stoðin líka að vera fyrir hendi, það þarf líka að skjóta henni undir kerfið. Það er hin samfélagslega stoð og það á eftir að gera það. Það var aldrei gert. Henni var aldrei skotið undir fiskveiðistjórnarkerfið og það hafði í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar fyrir byggðir landsins, fyrir margt fólk sem missti lífsafkomu sína, fyrir margar byggðir sem sáu á bak lífsbjörginni og fyrir menningu og lífshætti sem tíðkast höfðu kannski um aldir, menningu sem þróast hafði um aldir vegna nálægðar við fiskimiðin. Allt í einu einn góðan veðurdag, næstum eins og hendi væri veifað og án þess að íbúarnir vissu sitt rjúkandi ráð, var lífsbjörginni kippt burt og rétturinn til veiðanna kominn í hendur fjarlægra aðila sem urðu alltaf stærri og stærri og fjarlægari og fjarlægari og öflugri og öflugri og voldugri og voldugri. Að lokum höfðu þeir öll ráð íbúanna í hendi sér. Þessar umbyltingar á fiskveiðikerfinu höfðu gríðarlega erfiðleika í för með sér fyrir sjávarbyggðir víða um land.

Við sem tölum fyrir öðru kerfi viljum reyna að ná fram þremur markmiðum. Við viljum auka jafnræði við að úthluta þeirri þjóðareign sem nytjastofnarnir eru. Við viljum auðvelda nýliðun í greininni með því að lækka verulega leigugjald aflaheimilda og færa ákvörðun um upphæð gjaldsins fyrir veiðiréttinn frá stjórnmálamönnunum og til greinarinnar sjálfrar, enda er óeðlilegt að stjórnmálamenn vasist í slíku.

Þessu kerfi hafa fylgt miklar deilur í marga áratugi. Þær deilur hafa verið þreytandi fyrir þjóðina og fyrir þingið. Mikil orka hefur farið í þessar deilur. Fyrst og fremst er kannski þreytandi fyrir sjálfa atvinnugreinina, það fólk sem starfar í sjávarútvegi, að búa við stöðugar deilur um atvinnuveg sinn með tilheyrandi tortryggni og andúð. Það er ekkert eðlilegt að svo djúprættar og beiskar deilur standi um þennan grundvallaratvinnuveg.

Enn finnst manni eins og grundvallarspurningu um réttmætu tilkalli þjóðarinnar til arðs af fiskveiðiauðlindinni sé ósvarað og manni finnst eins og það vanti vilja og getu til að takast á við stærri myndina og það hvernig við skiptum þessari rentu. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér þykir miður að þessi meginatriði málsins skuli ekki vera rædd.

Stjórnarandstöðuflokkarnir báru fram tillögu um frávísun við 2. umr. Það var skynsamleg og hógvær tillaga. Henni var hafnað og öllum öðrum breytingartillögum sem voru tilraun til að setja á dagskrá einstaka þætti var líka hafnað, þó að a.m.k. tveir af þremur ríkisstjórnarflokkum hafi haft þá á stefnuskrá sinni. Nú leggjum við fram aðra skynsamlega tillögu, þ.e. að framlengja núverandi fyrirkomulag til að ná sátt, til að leysa málið í sátt og samlyndi. Það er ekki hundrað í hættunni þannig að okkur liggi einhver reiðinnar ósköp á að lækka veiðigjöldin. Það eru hagkvæm rekstrarskilyrði í greininni. Hún tórir alveg. Hún var a.m.k. nógu vel stæð til að borga sér 23 milljarða í arð í fyrra.

Hér liggur fyrir að veiðileyfagjald á að vera 7 milljarðar. Næstu þrjú árin verður það 6–8 milljarðar og eins og við stjórnarandstæðingar höfum kannski margtuggið, við höfum gaman af því að veifa því, er þetta nokkurn veginn sambærilegt við tóbaksgjald sem er 6 milljarðar. Kannski er full ástæða til að endurtaka það sem Mörður Árnason kenndi mér ungum manni að segja úr ræðustól Alþingis: Þetta eru ótrúlegar tölur.

Við í Samfylkingunni höfum talað fyrir útboði. Við höfum talað fyrir útfærslu á útboðum á aflaheimildum, enda eru útboð meginregla þegar hið opinbera þarf að útdeila einhverjum takmörkuðum gæðum, takmörkuðum aðgangi að tilteknum gæðum, til að fá sem best verð fyrir þau. Við leggjum samt ekki til útboð hér í dag enda sennilega ekki meiri hluti fyrir því í þingsal. Við tölum hins vegar (Forseti hringir.) fyrir því að vera ekki með asann í þessu máli, að vinna þetta mál betur og reyna að ná lágmarkssamstöðu þvert á alla pólitík.