149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:02]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég endurtek það núna aftur þegar hv. þingmaður er komin í salinn að ég treysti ríkisskattstjóra alveg til þess að vinna vinnuna sína. Það er ekki spurningin. Ríkisskattstjóri tók hins vegar mjög skýrt fram að það væri ekki auðvelt mál að finna út úr þessu og að þau gætu ekki með afgerandi hætti sagt til eða frá um hvort verið væri að stunda þetta, að það sé mjög erfitt að gera sér grein fyrir því. Vissulega munu þau gera sitt besta.

En spurning mín var ekki um það. Spurning mín sneri að ræðu hv. þingmanns þar sem hv. þingmaður hélt því fram að engin efnisleg gagnrýni hefði komið fram á efni frumvarpsins. Spurning mín var einföld: Er það ekki efnisleg gagnrýni að gagnrýna það að vinnslan sé tekin út úr reiknistofni veiðigjalds? Er það ekki efnisleg gagnrýni? Ég bara spyr svo ég endurtaki þá spurningu.

Svo bæti ég við í lokin annarri spurningu: Hvaða önnur rök eru á bak við það að taka vinnsluna út úr reiknistofninum en asnalegur bleikþvottur sem ég kaupi því miður ekki? Hver eru rökin fyrir því að taka þetta út? Ég hef ekki séð þeim haldið fram neins staðar.

Er það ekki efnisleg gagnrýni að benda á að þetta sé hvati til að svíkja undan því að greiða rétt gjald og gæti lækkað laun sjómanna? Er það ekki efnisleg gagnrýni? Hver eru rökin á bak við það að gera þetta svona? Af hverju mátti þessi pakki ekki vera eins og hann var? Hver eru rökin á bak við það?