149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er nú gaman að segja frá því að fyrstu lögin um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki voru samþykkt árið 2009 í tíð núverandi forseta Alþingis sem fjármálaráðherra. Þessi lög hafa síðan tekið margvíslegum umbótum á þeim tíma sem er liðinn síðan þá, á níu árum. Það er sérstaklega ánægjulegt, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefndi hér, að sjá þá miklu samstöðu sem er um þetta mál. Verið er að auka ívilnanir til fyrirtækja sem sinna rannsóknum og þróun. Það er í raun og veru eitt stærsta efnahagsmál okkar Íslendinga að hlúa betur að nýsköpun, rannsóknum og þróun því að þar liggja tækifæri framtíðarinnar. Þar liggur efnahagslíf framtíðarinnar og það skiptir alveg gríðarlegu máli, ekki síst á þeim tímamótum sem við erum stödd á þegar kemur að tæknibreytingum í samfélaginu, að við gerum það vel og að við stöndum vel að því að byggja upp nýsköpunarumhverfi þannig að hér geti orðið vöxtur framtíðarinnar. Þess vegna er ég sérlega ánægð að sjá þá samstöðu (Forseti hringir.) sem skapast hefur á Alþingi um þetta mikilvæga mál sem mun reynast farsælt fyrir þjóðina.