149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[16:50]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þessi kona mun í rauninni aldrei tala öðruvísi um þetta mál en hún gerði nákvæmlega núna. Hér er talað um að ég hafi ýmislegt við lögin að athuga. Það var aðeins eitt sem ég sagði að væri athugandi og væri rétt og satt að gera, það er að aðskilja í rauninni ófrjósemisaðgerðir versus fóstureyðingar, þannig að það sé ekki í einu og sama frumvarpinu.

Ég veit ekki hversu gildishlaðið það var þegar ég var að tala um 1.044 fóstureyðingar á árinu 2017, ég var bara að tala um upplýsingar frá landlæknisembættinu þar sem kemur fram að það voru framkallaðar fjórar fóstureyðingar á dag alla virka daga ársins 2017 og engri konu neitað um fóstureyðingu. Þess vegna liggur við að ég snúi þessu upp í andsvar á andsvarið, sem ég veit að er kannski ekki alveg í tísku, og spyrji: Hversu mikið þurfum við að gefa í? Skilar þetta ekki tilætluðum árangri, virðulegi þingmaður?

Það er alveg sama hvernig á þetta mál er litið, 22 vikna gamalt fóstur er jú spriklandi lítil mannvera, svo það sé sagt. Það er á engum tímapunkti sem ég geri lítið úr þeirri sorg og þeim erfiðleikum sem steðjar að þeim sem þarf að gangast undir þessa aðgerð. Ég er hins vegar að vísa til þeirra ófæddu barna sem hugsanlega myndu fæðast ef þetta frumvarp næði ekki fram að ganga.