149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[16:52]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í greinargerð með frumvarpinu á bls. 4 kemur fram að í 9. gr. núverandi laga eru þrjú skilyrði fyrir fóstureyðingu eins og það kallast í þeim lögum, þ.e. að þær séu vegna félagslegra aðstæðna, læknisfræðilegra aðstæðna eða þegar þungun kemur til vegna nauðgunar eða annarrar refsiverðrar háttsemi. Í framhaldi af textanum kemur í rauninni fram að þessar lýsingar sem tilgreindar eru á félagslegum aðstæðum í gildandi lögum eigi varla við í dag árið 2018. Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort ekki sé ástæða að breyta því. Og þá fer maður að velta fyrir sér: Hvað gætum við haft sem eðlilegar ástæður fyrir því að kona geti óskað þungunarrofs? Ég óttast að ef við færum í slíka upptalningu og reyndum að setja okkur inn í öll þau mögulegu og óvenjulegu atvik sem upp gætu komið, þá verði (Forseti hringir.) niðurstaðan sú sem sett er fram í þessu frumvarpi, að aðstæður konunnar séu best metnar af konunni sjálfri en ekki okkur hér, löggjafanum.