149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[17:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að það væri erfitt að setja sig í þessi spor. Hann var þá auðvitað að tala um þau spor að standa frammi fyrir slíkri ákvörðun. Sömuleiðis sagði hv. þingmaður að hann bæri virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti konunnar, en í sömu ræðu skynjaði ég mikla mótsögn í því efni sem hann fór út í. Hann talaði um geðþóttaákvarðanir og slíkt. Mér finnst í rauninni vera mótsögn þarna. Annaðhvort treystir hv. þingmaður konum til þess að taka þessa ákvörðun eða ekki. Mér finnst það ekki geta verið hvort tveggja.

En ég kem hér upp í andsvar við hv. þingmann vegna þess að við erum tveir þingmenn, við erum karlmenn. Ég hef tekið eftir því í þessari umræðu, hér sem annars staðar, að nálgun kvenna við hana er yfirleitt mjög frábrugðin nálgun karla þegar ég hlýði á mismunandi nálganir á rök. Rökin hjá körlum hafa tilhneigingu til að vera svona — ég vil ekki segja þurrari, en tæknilegri, meira út frá einhverjum mælieiningum eða því um líku. Þegar konur tala um sömu atriði nálgast þær það öðruvísi. Ég held það sé góð ástæðan fyrir því. Ég held að hún sé sú að konur hafa óhjákvæmilega innsæi sem mér er ómögulegt að hafa og tel það eiga við um alla karla nema þeir hafi verið konur áður. Það gerir það t.d. að verkum að ræða mín á eftir verður ekki svo mikið um efnislegt innihald frumvarpsins, en mér finnst mikilvægt að við gerum upp við okkur spurninguna um það hvar þessi mál eiga heima.

Ég tek eftir því að enginn er til í að segja að hann treysti konum ekki til að taka þessa ákvörðun. En þá finnst mér við þurfa að sýna það í verki og ekki segja konum hvernig þær eiga að haga þessari ákvörðun eða láta eins og þær séu að taka á þessu af einhverri léttúð, vegna þess að í því felast skilaboð um að karlmaður þurfi einhvern veginn stíga inn og hafa vit fyrir konunni, óhjákvæmilega, eðli málsins samkvæmt, þótt það sé ekki ætlun þingmannsins.

Mig langaði að leggja þetta upp fyrir hv. þingmann.