149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[17:44]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þau hafi verið sett til þess einmitt að koma til móts við þá hugsun ýmissa að konur velji barn eftir kyni. Ef það er eitthvað sem hjálpar umræðunni um þetta frumvarp að við þurfum að gera slíkt hið sama, færa tímamörkin aftar eða hvernig sem við viljum hátta því, held ég að það sé nú með þeim minni háttar breytingum sem hægt er að gera á frumvarpinu til að koma til móts við andstæða póla. Ég held að það hafi kannski einmitt verið svarið í Bretlandi, þó að ég þekki það ekki sérstaklega.

Ég sé ekkert að því ef fólk heldur að það sé raunverulegt vandamál á Íslandi eða í rauninni í Bretlandi að setja því mörk svo að konur velji sér ekki barn eftir kyni. Ef fólk telur það í alvöru vera raunverulegt vandamál held ég að það sé ekki mikið raunverulegt vandamál fyrir okkur að breyta því til að koma til móts við svo sérkennilegar hugsanir í garð kvenna og ákvörðunarréttar þeirra.