149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[18:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég kýs að líta ekki á sjálfan mig sem boðflennu í þessari umræðu þó að ég sé karlmaður kominn yfir miðjan aldur — ég get ekki annað — heldur er ég hér sem faðir tveggja barna á lífi og „eigandi“ fimm barnabarna. Ég hef mikinn áhuga á að hafa áhrif á það hvernig þeirra framtíð verður.

Við Íslendingar höfum verið í fararbroddi á alþjóðavettvangi. Við höfum t.d. barist gegn ótímabærum þungunum. Við höfum lagt áherslu á það á alþjóðavettvangi að konur hafi óskoruð yfirráð yfir sínum eigin líkama. Auðvitað eru mjög mörg rök til þess að endurnýja rúmlega 40 ára gamla löggjöf um þetta efni.

Það fer ekki hjá því, og það hefur sést og heyrst hér í þessum umræðum, að frumvarp sem þetta veki heitar tilfinningar. Það vekur upp tilfinningaríkar umræður. Við höfum talað svolítið um það hér að við erum að tala við fólk utan húss, sérstaklega konur sem hafa þurft að taka þá þungbæru ákvörðun að láta eyða fóstri sem þær ganga með og sem hlýtur að vera — nú tala ég af skilningsleysi — ein þungbærasta ákvörðun sem nokkur manneskja getur tekið, en þetta er líka þungbær umræða fyrir þann hóp sem er ekki fær um að eignast börn sem og þann hóp sem hefur orðið fyrir því að missa barn í móðurkviði.

Ég held að við eigum að bera virðingu fyrir öllum þessum tilfinningum.

Það gefur hins vegar augaleið að enginn er betur til þess fallinn en kona, verðandi móðir, að taka ákvörðun um að enda meðgöngu, með mikilli virðingu fyrir hópi þriggja sérfræðinga eða hvað það nú er. Ég efast ekki um nefndina sem kom að samningu þessa frumvarps, ég veit að hún er vel mönnuð. Ég þekki sumt af þessu fólki að góðu einu en ég hnaut samt um það að í nefndinni var t.d. enginn siðfræðingur. Ég hefði talið að þessi nefnd hefði átt að vera fjölskipaðri en hún var vegna þess að þetta mál snertir svo ofboðslega marga fleti.

Ræða hæstv. ráðherra var mjög góð en ég varð aðeins fyrir vonbrigðum með niðurlagið. Ég held að ég muni rétt að ráðherra hafi vitnað til þriðja aðila sem sagði að það myndi alltaf gerast að konur yrðu barnshafandi á röngum tíma með röngum manni vegna rifins smokks eða eitthvað slíkt. Það kann vel að vera að það verði ekki frá okkur tekið í framtíðinni en ég vona að í þessum orðum liggi ekki einhver yfirlýsing um að það að eyða fóstri sé einhver síðbúin getnaðarvörn, bara svo ég tali hreint út. En eins og ég segi eiga konur auðvitað að hafa óskoraðan rétt yfir líkama sínum og hvað þær gera. Áðan kom fram í máli hv. þm. Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur að við værum bara upptekin af vikufjöldanum. Það getur vel verið að ég sé bara upptekinn af vikufjöldanum en ég verð að segja út frá þeirri löggjöf sem við höfum og með því að bæta hana eins og við ætlum að gera núna að ég spyr mig hvort við þurfum að fara alla þessa leið.

Við vísum til Norðurlandanna sem eru með 12–18 vikur. Við ætlum að fara í 22. Við erum komnir á sama stað og Hollendingar og Bretar. Færeyingar eru miklu strangari en hinar Norðurlandaþjóðirnar þrjár. Ég spyr mig: Þurfum við að fara alla þessa leið? Í lögunum eins og þau eru núna er talað um að ef ástæður kalla á fóstureyðingu allt að 22. viku eða eitthvað slíkt vegna mikillar vansköpunar fósturs eða vegna þess að lífi móðurinnar er hætta búin sé sá möguleiki fyrir hendi hér. Ég hef skilið lögin þannig. Ég spyr mig hvers vegna við þurfum að fara tíu vikur fram úr þremur Norðurlöndum, Finnlandi, Danmörku og Noregi, í þessu skrefi þar sem við tölum um umyrðalausa fóstureyðingu eftir 21 viku og sex daga. Þetta er vissulega stórt skref. Ég fagna því sem segir í greinargerð, að þeirri konu sem fer í fóstureyðingu á þessum tíma sé kynnt áhættan við aðgerðina, henni verði gerð kunnugt um aðstoð sem hún getur fengið kjósi hún að ganga með barnið og að hinn aðili sambandsins fái líka upplýsingar um hvernig þessu er farið. Þetta er allt af hinu góða.

En það eru eiginlega tvær spurningar sem ég hef aðeins verið að velta fyrir mér líka. Sú fyrri er: Hvenær verður einstaklingur einstaklingur? Mér finnst dálítið stór spurning hvenær einstaklingur verður einstaklingur. Ég skal alveg viðurkenna það sem svar við spurningu hv. þm. Áslaugar Örnu, sem ég ber mikla virðingu fyrir, og ræða hennar var innblásin og góð og hún var þörf — það er alltaf gott þegar ungt fólk kemur inn í salinn og talar svo að gustar af því. Það blæs upp rykinu sem er í kringum okkur hina. En, jú, ég viðurkenni fúslega að ég sé svolítið fyrir mér fóstur sem er að stinga sér kollhnís í móðurkviði eins og þau gera þegar þau eru 22 vikna, hálft kíló, lífvænleg, með hár, þroskaðan heila, lungu byrjuð að þroskast nóg og augabrúnir. Það getur vel verið að það sé bara út af því að ég er gamall, feyskinn, afturhaldssamur og eitthvað, ég skal gangast við því öllu, en ég losna ekki við þessa mynd.

Þess vegna skal ég bara viðurkenna það: Já, ég er upptekinn af því að þetta séu 22 vikur eða 21 vika og sex dagar. Ég væri mjög til í að taka mjög alvarlega umræðu um akkúrat það. Ég væri líka til í að fara mjög djúpt ofan í það markmið að tryggja að verðandi móðir hafi síðasta orðið, ekki þrír sérfræðingar, ekki einhver annar, heldur að verðandi móðir hafi alltaf síðasta orðið.

Það veit enginn nema sá sem reynt hefur eða verið nálægt því hvað slík ákvörðun getur verið hræðilega þungbær og erfið að taka. Það ber ekki að tala um það af léttúð, alls ekki. Það á ekki að gera það. Þess vegna velti ég líka fyrir mér hvað hafi vakað fyrir þeim sem kusu að breyta nafni á þessari aðgerð, að tala um þungunarrof í staðinn fyrir fóstureyðingu, hvort það sé tilraun til að gera þessa ákvörðun einhvern veginn léttbærari, auðveldari eða öðruvísi en hún er. Ég sé það ekki fyrir mér sjálfur. Ég held að svoleiðis ákvörðun verði alltaf jafn þungbær hverjum sem í því lendir, alveg sama hvaða nafni við köllum aðgerðina.

En að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að lögin sem eru orðin allforn þurfi leiðréttingar og lagfæringar við.

En það er hin spurningin sem ég hnaut um og get ekki losnað við úr hausnum og verð þess vegna að bera fram hér: Hvað er það sem kemur í ljós við 20 vikna sónar? Hér hefur komið fram að það er t.d. kyn. Líka Downs-heilkenni. Ég held að við verðum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort sá vikufjöldi sem er miðað við í þessu frumvarpi sé á einhvern hátt miðaður að því að börn með Downs-heilkenni fæðist ekki lengur á Íslandi og hvort við ætlum að fara að skima fyrir því heilkenni í því augnamiði að slík börn fæðist ekki á Íslandi. Ef það hefur á einhvern hátt filtrast inn í þetta frumvarp tel ég það miður. Við sem viljum fagna fjölbreytileika lífsins, hvernig sem hann birtist, eigum ekki að stuðla að því að fjölbreytileikinn endi þarna, alls ekki.

Nú segi ég aftur: Ég finn líka til með fólki sem er að fylgjast með þessari umræðu og er ófært um að eignast börn. Ég finn til með því líka. Ég finn til með fólki sem er að leita sér að barni til fósturs af því að það vantar lífsfyllingu og vantar farveg til að hella ást sinni í. Ég get þess vegna ekki nógsamlega bent á það að ef með þessu frumvarpi verður gerð, ég ætla ekki segja alvörutilraun heldur alvöruatlaga að því að gera konum kleift að ganga fulla meðgöngu, eignast börn, gera þeim kleift og segja þeim í tíma að það sé möguleiki á því að þær geti gefið sín börn til ættleiðingar, að sá möguleiki sé gerður auðveldari, kannski manneskjulegri en er í dag, held ég að það væri líka mikill árangur í staðinn fyrir að horfa staðfastlega á þann möguleika sem er undir í þessu frumvarpi sem nota bene rúmlega 1.000 konur notuðu sér á síðasta ári.

Ég segi því aftur: Þessi umræða er erfið, hún er tilfinningarík. Við verðum hins vegar að taka hana og við verðum að taka hana af hreinskilni og heiðarleika. Við verðum að virða skoðanir hvert annars og við verðum að láta af því í þessu máli sem skiptir svo marga svo miklu máli að vera með óþol gagnvart skoðunum annarra.

Síðan þurfum við náttúrlega að afgreiða þetta frumvarp sem lög eins vel og við getum þannig að það komi öllum þeim sem það varðar eins vel og hugsast getur. Það er skylda okkar og það eigum við að gera.