149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[18:48]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir og tek fram að ég var að tala um að aðrir þingmenn sem töluðu á undan mér hefðu sagt þetta, en ég lagði ekki þann skilning í orð hv. þingmanns. En mig langaði að fá það á hreint af því að mér þykir gott að heyra að fólk sé tilbúið að ræða þetta frumvarp sem framför þó að við tökumst á um einhver atriði innan þess.

Ég er verulega tilbúin í þá umræðu og ég heyri á hv. þingmanni að hann er líka tilbúinn til þess og telur margt í frumvarpinu til bóta, enda verður ekki annað séð á langflestum ræðumönnum hér en að einhugur sé — á því eru einhverjar tvær undantekningar — um að frumvarpið í heild sé nauðsynlegt. Svo getum við tekið málefnalega umræðu um hvernig við útfærum nokkur atriði.

Þetta var það eina sem ég vildi koma á framfæri í ræðu minni áðan, af því að þá höfðu tveir hv. þingmenn lýst andstyggð sinni á frumvarpinu og voru algerlega andsnúnir öllu málinu.

En ég fagna því að hv. þingmaður er það ekki og sé tilbúinn að ræða málið. Ég tel að okkur muni vegna mun betur og að við munum búa til mun betri löggjöf fyrir alla, til að mynda þá sem hv. þingmaður nefnir, ef okkur tekst að ræða málið á þeim nótum, sem ég tel mun til bóta.

Ég hef ekki fleiri spurningar um ræðu hv. þingmanns.