149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[19:43]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram hefur hv. umhverfis- og samgöngunefnd haft tvo daga til að skoða þetta mál sem var fleygt inn í nefndina á síðustu stundu með gamalkunnum hætti. Þetta er stórmál allra hluta vegna vegna þess að hér er um að ræða grundvallarstefnubreytingu í því hvernig við fjármögnum stórframkvæmdir hér á landi. Þetta er fyrst og fremst stórmál fyrir íslenskan almenning vegna þess að þarna er um að ræða álögur á daglegt líf fólks, á okkar daglegu venju. Þetta er skattheimta á okkar daglega líf. Slíkt rennur ekki sisvona í gegnum þingið þó að hæstv. samgönguráðherra hafi haft ríkulegt samráð við sjálfan sig um það.