149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[20:02]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um þungunarrof. Ég vil þakka heilbrigðisráðherra fyrir framlagningu þessa frumvarps en verið er að endurskoða lög frá árinu 1975 og skilja á milli laga um þungunarrof, eða fóstureyðingar í fyrri lögum, og ófrjósemisaðgerða. Frumvarp þetta er að hluta til byggt á vinnu nefndar um heildarendurskoðun laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Nefndin var skipuð sérfræðingum sem þekkja vel til þessa málaflokks og er unnið eftir tillögum þeirra að hluta.

Í dag hafa verið miklar tilfinningar í umræðunni og það er mjög eðlilegt því að í slíkum málum eru margar birtingarmyndir þeirra aðstæðna sem leiða til þungunarrofs. Þær eru það margar að hver og ein kona á sínar eigin aðstæður og ekki hægt að fullyrða um neinn út frá því.

Varðandi áhyggjur af því að aukin tíðni þungunarrofs verði í lok þess tímabils sem um ræðir í frumvarpinu, eða frá 16. viku og allt að 21. viku og sex dögum, þá kemur fram í Talnabrunni landlæknis að á árinu 2017 var aðeins um 1% þungunarrofa gert eftir 16. viku meðgöngu.

Lagt er til í frumvarpinu að ákvæði laga nr. 25/1975, um að fóstureyðing skuli ætíð framkvæmd eins fljótt og auðið er eða helst fyrir lok 12. viku þungunar, muni standa áfram í nýju lögunum til að undirstrika mikilvægi þess að þungunarrof skuli framkvæmt eins snemma og mögulegt er.

Í Kanada sýnir reynslan að þrátt fyrir víðtækar heimildir til þungunarrofs eru yfir 90% allra þungunarrofa framkvæmd fyrir lok 12. viku og aðeins 0,3% eftir lok 20. viku, en í Kanada eru engin tímamörk á þungunarrofum.

Mig langar aðeins að fjalla um það sem hefur verið rætt hér, að kona viti ávallt fyrir 12. viku hvort hún sé barnshafandi eða ekki. Það kann að vera erfitt að skilja fyrir þá sem ekki hafa verið í þeirri stöðu en það er bara þannig að mörg dæmi eru um að konur hafi alið fullburða börn án þess að hafa gert sér grein fyrir því að þær hafi verið barnshafandi. Þar geta komið inn í erfiðar aðstæður, afneitun, áfengis- eða fíkniefnaneysla o.fl., sem getur haft áhrif á þá skynjun.

En það er annar þáttur í frumvarpinu sem ekki hefur verið svo mikið ræddur í dag, sem mér finnst mjög mikilvægt að árétta. Það er 8. gr. frumvarpsins um fræðslu og ráðgjöf. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Áður en þungunarrof er framkvæmt skal veita konu fræðslu um áhættu samfara aðgerðinni, sbr. 5. gr. laga um réttindi sjúklinga. Ef læknisfræðilegar ástæður mæla gegn þungunarrofi skal fjalla sérstaklega um það og hugsanlegar afleiðingar þess. Ef kona ákveður samt sem áður að láta rjúfa þungun sína skal það skráð sérstaklega í sjúkraskrá. Kona skal eiga kost á stuðningsviðtali bæði fyrir og eftir þungunarrof. Öll fræðsla og ráðgjöf í tengslum við þungunarrof skal veitt á óhlutdrægan hátt og byggjast á gagnreyndri þekkingu með virðingu fyrir mannréttindum og með mannlega reisn að leiðarljósi.“

Þetta finnst mér mjög mikilvægt. Í því er ekki skylda að kona fái fræðslu heldur stendur henni hún til boða. Þarna er það stuðningur og ráðgjöf sem er lykilatriði, að konunni sé mætt á þeim stað sem hún er og hún studd á hlutlægan hátt til að taka ákvörðun sem hún að lokum er sátt við. Kona á að geta leitað sér stuðnings í ákvörðunarferlinu ef hún óskar þess.

Einnig vil ég gera að umtalsefni þungunarrof hjá stúlkum sem er ólögráða fyrir æsku sakir. Sá hópur þarf einna helst á stuðningi og fræðslu að halda, einkum ef hann er ekki að finna í fjölskyldu eða nærumhverfi stúlkunnar. Því miður geta þær aðstæður verið til staðar að betra sé fyrir ólögráða stúlku að þungunarrof sé framkvæmt án vitundar foreldra eða forráðamanna. Þá er stuðningurinn og fræðslan enn mikilvægari.

Ég vona því að frumvarpið fái góða og vandaða umfjöllun hjá hv. velferðarnefnd. Nefndin mun án efa velta upp hinum ýmsu sjónarmiðum í málinu. Ég árétta að ég styð eindregið þá breytingu sem sett er fram um sjálfsákvörðunarrétt kvenna og vil undirstrika að það þýðir ekki að konur muni óska eftir þungunarrofi án þess að ráðfæra sig við nokkurn mann eða taka slíka ákvörðun án yfirvegaðrar umhugsunar.

Í dag var rætt um fóstureyðingu, þungunarrof, hvaða orð væri notað, hvort það skipti einhverju máli. Ég þori að fullyrða að það skiptir engu máli hvað aðgerðin heitir, hún hefur alltaf mikil áhrif á þann einstakling sem velur þá leið.