149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[21:21]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég hef hlustað eins og kostur hefur verið í önnum dagsins á margar af þeim ræðum sem hér hafa verið haldnar. Þær hafa verið áhugaverðar, margar mjög góðar, og það hafa komið fram alls konar sjónarmið sem ég ætla svo sem ekki að rekja hér eða tala í löngu máli um þetta mál, þetta er mikið rætt. Það er eiginlega ein lína sem mig langar að taka í þessu. Hún er annars vegar sú, sem mér er mjög annt um, sem snertir sjálfsákvörðunarrétt fólks almennt og hins vegar það að þegar samfélagið er sammála um einhverja hluti þá sé samfélagsgerðin þannig að hún styðji einstaklinga í þeirri viðleitni að lifa samkvæmt því.

Mig langar til að byrja á að segja að markmið þessara laga, að tryggja sjálfsforræði kvenna sem óska eftir þungunarrofi og að virða það með því að veita þeim öruggan aðgang að heilbrigðisþjónustu í samræmi við ákvæði laganna og að tryggja yfir höfuð forræði þeirra yfir eigin líkama, er nokkuð sem ég styð algerlega 100%.

Ég ætla að lýsa aðeins hvaða þankagang ég fór í gegnum í umræðunni. Hæstv. ráðherra leggur fram til umsagnar frumvarpsdrög sem kveða á um heimildir fram að lokum 18. viku. Gott og vel. Það er eitthvað sem er mikil bót frá því sem nú er. Öll lagasetningin um þetta mál er bót frá því sem nú er. Síðan kemur frumvarpið út með þessum 22 vikum. Það kostaði svolitla sjálfsskoðun hjá mér að fara í gegnum það hvort það væri eitthvað sem ég væri sátt við. Ég skoðaði gögn og tölur sem sýndu að þar sem ríkir frjálsræði af þessum toga, löggjöfin er þannig, þýðir það ekki neina aukningu, eins og hæstv. ráðherra kom reyndar inn á í andsvörum við mig í dag, hvorki fjölgun á þungunarrofum né að tíminn færist aftar. Það sem þetta gerir hins vegar er að það þurrkar út þennan millikafla sem ætti að vera, þ.e. sjálfsákvörðunarréttur kvenna er alger upp að vissu marki, 18 vikur í tilfelli frumvarpsdraganna, en eftir það þarf sérstakar aðstæður til. Og þær sérstöku aðstæður, fyrir utan það að stefna mögulega lífi og heilsu viðkomandi konu í voða, eru að það er eitthvað að fóstrinu, þ.e. einhver frávik, einhver fötlun. Þar með erum við farin að kaflaskipta þessu svolítið mikið og það er það sem mér hugnast ekki.

Ég er sátt við þessa nálgun svona, að það séu 22 vikur, í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið um áhrifin sem þetta hefur víða. En að því sögðu þá hef ég líka áhuga á því að ræða, eins og ég kom inn á í andsvörum mínum fyrr í dag, þessar skimanir sem eru jú undirliggjandi hluti af þessu öllu, tímasetning sónars og þann mikla fjölda kvenna sem fer í sónar. Ég held að ég fari rétt með að það eru hátt í 100% kvenna sem fara í 12 vikna sónar og svo um 80% sem fara seinna.

Svo ég fari svolítið út fyrir efnið núna þá erum við mjög hrifin, mjög upptekin af skimunum hér á landi og í einhverjum geirum heilbrigðiskerfisins er það svo að það kallar beinlínis á oflækningar. Þetta er svolítið eins og eitthvert dót sem við erum ekki alveg búin að ná tökum á hvernig við notum.

En það sem mér finnst mikilvægt, og ég veit að hæstv. ráðherra er mér sammála þar og hún hefur svolítið mikið um það að segja núna, er að á sama tíma þá tryggjum við að samfélagið geri eins og best það getur — við getum gert það í gegnum löggjöfina og við getum gert það í gegnum alls konar hluti — og standi við það líka að þegar fatlaðir einstaklingar koma í heiminn séu þeim tryggð sömu skilyrði og öðrum til góðs lífs, menntunar, uppvaxtar og síðan starfs við hæfi þegar þeir vaxa úr grasi. Að við stöndum við það að samfélag okkar allt taki jafn vel á móti öllum einstaklingum í sínum fjölbreytileika sem fæðast. Ég held að fjölbreytileiki sé eitt af stóru málunum.

Ég hef hlustað töluvert oft á þá spurningu hér af hverju þetta sé ekki bara í lagi eins og þetta er, vegna þess að þrátt fyrir að lagabókstafurinn sé ekki mjög nútímalegur erum við með einhverjar uppfærslur þar, það eru nefndir, og hér hefur verið tekið fram að það eru ekki margar konur sem hafa fengið höfnun við beiðni um þungunarrof. En það er bara staðreynd að það felst hindrun í því að þurfa að kvitta upp á að maður uppfylli einhver skilyrði sem einhverjir aðrir hafa sett fyrir því að fá að taka þessa ákvörðun, óháð því hvort það er samþykkt eða ekki, bara með því að það þurfi að fara í gegnum þetta er búið að taka þennan ákvörðunarrétt af konu.

Ég hef skoðað hvernig staðan er á Norðurlöndum. Þar er mismunandi langt gengið. Ég hef fylgst með þróun í Noregi þar sem hefur verið vilji einstakra flokka að herða mjög tökin á þessu þannig að það skipast skjótt veður í lofti víða. Ég tel gríðarlega mikilvægt að ná þessari löggjöf í gegn núna þannig að þetta verði óumdeilt.

Ég trúi því að þetta muni hafa jákvæð áhrif fyrir þær konur sem þurfa af einni ástæðu eða annarri að ganga í gegnum það að velta því fyrir sér og síðan taka ákvörðun um þungunarrof. Ég er sannfærð um að það gerir enginn að gamni sínu. Ég er sannfærð um að þegar búið er að breyta lögum þannig að þær hafi sjálfar þennan rétt, að þurfa ekki að setjast niður og flytja mál sitt eða biðja um leyfi, verði það þeim léttbærara. Það felst í þessari löggjöf engin mótstaða við því að þær fái alla þá aðstoð sem þær óska eftir, ef þær gera það.

Ég ætla ekki, herra forseti, að lengja mál mitt frekar. Mig langaði bara að koma þessari hugsun hérna á framfæri, annars vegar af hverju ég komst eiginlega að þeirri niðurstöðu, aftur, eftir að hafa flakkað á milli 18 og 22 vikna, að ég væri sátt við þetta svona, og hins vegar áherslu á að skimunarmálið verði skoðað og ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur talað um það og er að vinna í því. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við skoðum vel vegferð okkar þar.

Á heildina litið, eins og alltaf þegar um er að ræða jafnréttismál, fagna ég þessu frumvarpi og óska þess að það nái fljótt fram að ganga.