149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Forseti. Í tilefni þess að starfshópur skilaði skýrslu varðandi innanlandsflugið, flugvallakerfi og skosku leiðina í síðustu viku, þar sem við fórum vítt og breitt, hefur skapast umræða á þingi um kolefnisspor flugsins. Ég hef heyrt það og fengið þær athugasemdir að kolefnissporið sé miklu meira af því að nýta flugið en að keyra um landið. Þá vil ég benda þingheimi á að það er ekki meira kolefnisspor af innanlandsfluginu en af flutningum fólks um vegi landsins. Mér finnst mikilvægt að það komi fram þannig að umræðan fari ekki á villigötur, þannig að réttar upplýsingar séu hjá öllum hv. þingmönnum um stöðuna á þessum málum.

Raunar eru þessir útreikningar með þeim hætti — þá tek ég Vegagerðina — að þegar við ferðumst um þjóðvegi landsins eru að meðaltali 2,3 farþegar um borð í bíl. Færum það kolefnisspor yfir á innanlandsflugið og ákveðnar leiðir þar sem við reiknum með 70% nýtingu. Þá kemur það mjög sambærilega út. Þegar maður ferðast í flugi er meðaltalið 1,5–1,8 farþegar, sem þýðir aftur að ef viðkomandi ferðuðust í bílum yrði til umtalsvert meira kolefnisspor vegna þess.

Mér finnst mikilvægt að sá skilningur sé til staðar. Ég hyggst kynna þetta betur á næstunni og starfshópurinn er alltaf til í að kynna flugskýrsluna og það innlegg sem kemur í samgönguáætlun um flugið. Við bjóðumst til að koma fyrir alla þingflokka sem tengjast því.

Varðandi varaflugvellina, sem eru síðan hitt málið í skýrslunni, þá eru þeir líka stórt mál í sambandi við kolefnisspor þjóðarinnar þannig að menn beri minna eldsneyti í umferðinni yfir hafið. Ef við höfum góða varaflugvelli bera vélarnar minna eldsneyti og þar með verður kolefnissporið minna, ykkur hér á þinginu til upplýsingar.