149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Samgöngur og aðrar innviðaframkvæmdir eru grundvallaratriði til að byggja upp lífsgæði og styrkja samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar, til að efla grunn og skapa grunn að tækifærum fyrir byggðir landsins. Þetta er á okkar ábyrgð. Það er á okkar ábyrgð á þessu þingi að þessar áherslur gangi eftir. Við sjáum fyrir okkur miklar breytingar í hefðbundnum atvinnugreinum þar sem höndum fækkar, færri hendur búa til mikil verðmæti. Við þurfum að skapa ný tækifæri. Innviðirnir eru grunnur að því að slíkt sé hægt. Það á við um fjarskipti, samgöngur og aðra slíka innviði.

Nú liggur fyrir tillaga um breytingar á samgönguáætlun. Hún snýst um þetta, hún snýst um það að stíga stórstíg skref til styrkingar byggðum í landinu, eflingar á þjónustu við landsbyggðina, eflingar á samgöngum fyrir höfuðborgarsvæðið og landsmenn alla, aukins umferðaröryggis, færri slysa, minna tjóns fyrir samfélagið. Er þá ekki verið að setja verðmiða á mannlegan harmleik.

Ég fagna því samkomulagi sem forsætisráðherra beitti sér fyrir um þetta mikilvæga mál í þinginu í gær. Ég hvet hv. þingmenn til að nota nú tækifærið sem fram undan er þar til að við tökum þetta mál til umfjöllunar aftur á vettvangi umhverfis- og samgöngunefndar um miðjan janúar og kynna sér málið vel, nálgast það með málefnalegum og ábyrgum hætti, með það í huga hvert við stefnum, hversu mikilvægt þetta er fyrir okkur öll.

Við ljúkum þessu máli fyrir lok janúar og ég sagði í ræðustól hv. Alþingis í gær að við ættum að gefa þjóðinni þetta í jólagjöf. Við skulum bara færa henni þetta í nýársgjöf. [Hlátur í þingsal.]