149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[16:50]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er áhugavert að skoða tekjuáform ríkisstjórnarinnar í samhengi við yfirlýsingar stjórnarinnar sjálfrar um helstu áherslur sínar. Sú mynd sem hefur verið teiknuð upp fyrir okkur og við höfum reyndar varað við að sé mjög varasöm út frá hagstjórnarlegu sjónarmiði er að hér sé ríkisstjórn sem ætli í senn að lækka skatta en stórauka útgjöld. Vissulega höfum við séð mjög fast í hendi útgjaldagleði ríkisstjórnarinnar, þó að við getum deilt um forgangsröðun þeirra útgjalda, en ríkisstjórnin er búin að auka útgjöld ríkissjóðs um 100 milljarða kr. á rúmu ári í starfi með fjárlögum sínum fyrir árið 2018 og þau fjárlög sem nýafgreidd eru fyrir 2019. Þessi útgjaldagleði ein og sér hefur ekki einu sinni dugað af því að ríkisstjórnin hefur bætt við því til viðbótar einum 30 milljörðum hið minnsta í tvennum fjáraukalögum, fjáraukalögum fyrir árið 2017 og svo aftur fjárauka fyrir árið 2018. Þetta eru 130 milljarðar sem búið er að spýta í í ríkisútgjöldunum á ekki lengri tíma, en þá kemur að því sem ég kalla leiktjaldastjórnmál eða ásýndarstjórnmál, þau sem þessi ríkisstjórn stundar, það að telja okkur trú um að ofan í þetta sé hún að lækka skatta en það kemur nefnilega á daginn þegar maður fer að skoða tekjuáform ríkisstjórnarinnar að hún er akkúrat að gera hið gagnstæða. Hún er að hækka skatta. Það staðfesti hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kannski hvað best þegar hann kom upp í umræðu um bandorm ríkisstjórnarinnar, sem var til atkvæðagreiðslu áðan, þegar hann lýsti sérstakri ánægju sinni yfir þeirri skattstefnu sem verið væri að móta í þessu ágæta plaggi stjórnarinnar.

Hvað sjáum við í raun og veru — því að mikið hefur verið talað um meintar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar. Talað var um að ráðast ætti í lækkun á tekjusköttum einstaklinga, en á sama tíma ákveður ríkisstjórnin að taka það snilldarráð að hætta að hækka viðmiðunarfjárhæðir skattkerfisins miðað við laun og hækka þær miðað við verðlag. Þetta þýðir innbyggða og stöðuga skattahækkun í tekjuskattskerfið okkar inn í eilífðina. Það er kannski mjög þægilegt að þurfa bara að taka þessa umræðu einu sinni en þá er ágætt — ég verð að lýsa sérstakri ánægju með hv. efnahags- og viðskiptanefnd að stíga þar inn í og setja sólarlagsákvæði á þá vitleysu. Það er auðvitað mjög varasamt til lengri tíma litið að ætla að leyfa þessum viðmiðunarfjárhæðum þrepanna að rýrna svo á móti kaupmætti að í sé varanleg skattahækkun frá ári til árs.

Það er búið að hækka fjármagnstekjuskattinn. Barna- og vaxtabætur hafa rýrnað þrátt fyrir þau áform ríkisstjórnarinnar að hækka þær. Þá er vert að minnast þess fyrir ári þegar meiri hlutinn felldi allar tillögur bæði Viðreisnar og Samfylkingarinnar í þá veru að reyna að viðhalda bótafjárhæðum barna- og vaxtabóta miðað við þær launahækkanir og þá kaupmáttaraukningu sem orðið hafði. Tekin var sérstök yfirferð yfir öll krónugjöld ríkissjóðs fyrir afgreiðslu þessara fjárlaga þar sem m.a. var tekin allt að tíu ára uppfærsla á ýmis gjöld sem höfðu staðið óhreyfð og voru þá færð upp í takt við verðlagsþróun síðastliðinna 5–10 ára í mörgum tilvikum. Ágætt er að hafa í huga að það að skrá einkahlutafélag kostar núna liðlega 130.000 kr., ef ég man þá tölu rétt, og það er af hlutfalli lágmarksinnborgaðs hlutafjár upp á 500.000 kr. býsna hátt hlutfall. Það er það langhæsta sem fyrirfinnst í nágrannalöndum okkar þegar að þessum þætti kemur.

Þessar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar einar og sér duga ekki til heldur er boðað að nú skuli lögð á myndarleg veggjöld til að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir og nauðsynlegt viðhald í vegakerfinu af því að þessi gríðarlega útgjaldaaukning dugir ekki til til að sinna í raun og veru grunnverkefnum ríkisins.

Í því felst ekkert annað en veruleg skattahækkun. Alveg sama hvaða viðhorf við kunnum að hafa til mikilvægis þessara framkvæmda er þetta skattahækkun á almenning, skattahækkun á íbúa landsins, skattahækkun sér í lagi á íbúa suðvesturhornsins og gangi þessi áform eftir auðvitað veruleg skattahækkun t.d. á það fólk sem sækir vinnu um þær stofnbrautir til og frá höfuðborgarsvæðinu sem á að taka veggjöld upp á.

Allt tal um skattalækkanir ríkisstjórnarinnar er blekking en vissulega má segja að ríkisstjórnin hafi ákveðið að lækka verulega álögur á útgerðina og má kannski í því samhengi færa rök fyrir því að ríkisstjórnin sé að færa skattbyrði af atvinnulífinu og yfir á einstaklinga. Síðan getum við deilt um hversu góð sú forgangsröðun er hjá ríkisstjórninni.

Það gefur augaleið að í þessari miklu útgjaldagleði verður eitthvað undan að láta og þrátt fyrir yfirlýsingar um hið gagnstæða sjáum við að ríkisstjórnin leitar nú allra leiða til að auka álögur á einstaklinga til að fjármagna þau útgjöld sem fram undan eru. Ég held að við séum rétt að byrja að sjá þennan tekjuöflunarvanda ríkisstjórnarinnar. Þegar við sjáum um leið að ýmis merki eru á lofti um að tekið sé að hægja á í hagkerfinu dregst m.a. saman í einkaneyslu sem er stofninn að helsta tekjustreymi ríkissjóðs. Ég gæti trúað að ríkisstjórnin muni lenda í talsverðum vanda þegar kemur inn á árið 2019, að tekjur standi undir þeim útgjöldum sem búið er að heita.

Ágætt er að hafa í huga líka að það birtist svo vel í fjárlögum og þá tekjuöflunaraðgerðum ríkisstjórnarinnar hversu þröngt hún hugsar, hversu litlar lausnir hún hefur í raun og veru fyrir almenning í landinu fram að færa. Hún sér tækifæri í að auka útgjöld ríkissjóðs vissulega víða, en hún sér engin tækifæri þar sem við höfum stærstu tækifærin varðandi það að auka kaupmátt íbúa landsins. Það er einmitt þegar kemur að vaxtastigi og matvælaverði. Það er svo ótrúlegt að horfa upp á ríkisstjórn sem telur sig vera að vinna í þágu almennings skella skollaeyrum við þeirri einföldu staðreynd að matvælaverð hér er með því hæsta sem þekkist á Vesturlöndum og vaxtastig að jafnaði 5 prósentustigum hærra en í nágrannalöndum okkar og bara með því að ná jafnstöðu við t.d. nágranna okkar á Norðurlöndunum hvað þetta varðar mætti spara fjögurra manna fjölskyldu 150.000–200.000 kr. í útgjöldum á mánuði.

Mér reiknast til að fyrir meðaltekjufjölskyldu samsvari þetta 20–30% af laununum. Það munar um minna og þetta er auðvitað það sem komandi kjarasamningar ættu kannski einna helst að snúast um. Ég get tekið undir með hv. ræðumanni Loga Einarssyni að ég vona að verkalýðshreyfingin beiti sínu afli til að þrýsta á ríkisstjórnina. Hérna liggja raunverulegir hagsmunir almennings, raunverulegir hagsmunir þjóðarinnar. Ef okkur tækist að skila almenningi þessum kaupmáttarauka án þess að í því fælist neinn kostnaðarauki fyrir atvinnulífið værum við svo sannarlega að skila góðu dagsverki. En það er víst til of mikils mælst að ætlast til þess að ríkisstjórnin vinni að slíkum umbótum.

Það kemur alltaf betur og betur í ljós að núverandi ríkisstjórn er varðhundur óbreytts ástands. Ríkisstjórnin hefur ekkert hugmyndaflug til neinna raunverulegra kerfisbreytinga, en útgjaldagleði hennar er mikil og það sem kemur betur og betur í ljós er að hugmyndaauðgi hennar til skattahækkana er það sömuleiðis.