149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

umboðsmaður Alþingis.

235. mál
[17:50]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og framsögumanni þessa nefndarálits, Helgu Völu Helgadóttur, fyrir. Ég kom fyrst og fremst hingað upp til að lýsa ánægju minni með að málið er að fá hér vonandi farsælar lyktir. Þetta er mjög mikilvægt mál, að við getum passað upp á það að fólk sem er svipt frelsi sínu, sem er auðvitað mjög alvarleg íhlutun af hálfu opinbers valds, að haft sé eftirlit með því að vel sé um það fólk búið. Við eigum auðvitað í sögunni dæmi um að svo hefur ekki alltaf verið og mjög gott að koma þessu í þetta horf og er umboðsmaður að sjálfsögðu vel til þess fallinn, eins og góð grein hefur verið gerð fyrir, að taka að sér slíkt eftirlit.

Ég vil líka sérstaklega fagna því að komið er inn almennt ákvæði, sem snertir ekki þetta beint eða eingöngu, þ.e. svokallað OPCAT-eftirlit um uppljóstrara og vernd þeirra, sem skiptir miklu máli. Það sem ég vildi fá að segja er að ákvæði af þessu tagi þyrftu sennilega að vera víðar, almenn löggjöf kannski um þetta væri æskileg, og er svo sem verið að huga að því.

En það sem ég vildi eiginlega spyrja eða svona hugleiða með hv. framsögumanni er sérstaklega staða þeirra sem koma upplýsingum á framfæri við ríkisendurskoðanda, hvort það væri ekki viðfangsefni fyrir nefndina að huga (Forseti hringir.) að breytingum í þá veru gagnvart þeim sem vekja athygli ríkisendurskoðanda á því sem miður hefur farið.