149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

álag á kynferðisbrotadeild lögreglunnar.

[11:07]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Eins og ég nefndi í fyrra svari mínu þá teldi ég það ófremdarástand ef mikil aukning væri á skilorðsbindingu dóma í alvarlegum málum. Nú hef ég ekki þessa tölfræði og mér finnst gagnlegt að menn sýni fram á einhverja tölfræði og mögulega einhverjar útskýringar á þeirri tölfræði. Eins og kemur fram í fréttinni, sem hv. þingmaður nefnir, er þar vísað til mjög sérstakra tilvika. Ég get ekki tjáð mig um það, enda er þetta þess utan eitthvað sem ákæruvaldið sjálft þarf að skoða. Dómsmálaráðherra hefur ekki afskipti af ákærum eða rannsókn sakamála, heldur er ákæruvaldið algerlega sjálfstætt að því leyti og lögreglan að þessu leyti einnig. En bæði lögregla og ákæruvald þurfa þá að skoða það grannt hjá sér hvort laga þurfi vinnubrögð þar innan húss til að mæta þessu. Auðvitað þarf að forgangsraða rannsókn mála þannig að alvarlegustu brotin verði ekki í þeim málsmeðferðartíma að það valdi réttarspjöllum.