149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[11:22]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Þetta er mjög einfalt. Við erum að taka hér ákvörðun um að tekjuskattur einstaklinga verði 1,7 milljörðum nettó lægri á komandi ári. Það er fyrst og fremst vegna þess að við erum að taka ákvörðun um að persónuafsláttur skuli hækka meira en gildandi lög segja til um. Það ætti að vera fagnaðarefni. Auk þess er, eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, unnið að því, m.a. í samráði við aðila vinnumarkaðarins, að endurskoða tekjuskattskerfið. Þess vegna erum við að leggja til að þetta gildi hér aðeins í eitt ár. Endurskoðun tekjuskattskerfisins felst m.a. í því að endurskoða hvernig við stöndum að barnabótum og vaxtabótum og hvernig við nýtum tekjuskattskerfið til þess að styðja við ekki síst þá sem lakast standa.

Þetta er endurskoðunin sem er í gangi (Forseti hringir.) og þetta er það verkefni sem bíður okkar á nýju ári.