149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

157. mál
[11:34]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við göngum hér til atkvæða, eins og hv. þm. Halldóra Mogensen kom að, um bráðabirgðaákvæði vegna þjónustu við fatlað fólk, svokallaðrar NPA-þjónustu. Nefndin þrengir upprunalega ákvæðið verulega frá því sem var. Nú er það eingöngu bundið við NPA-þjónustu, við 11. gr. laganna, og við styttum einnig þann tímafrest sem aðilar sem að málinu koma og ráðuneytið hafa til að bæta úr þeim ágöllum sem eru á lögunum þannig að þau nái vel utan um þá þjónustu. Því að auðvitað er það grundvallaratriði að þeir starfsmenn sem starfa við þessa þjónustu njóti sömu réttinda og sömu verndar að lögum og aðrir starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði.