149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

lyfjalög og landlæknir og lýðheilsa.

266. mál
[12:09]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Vegna þess að mér er þetta svo mikið hjartans mál finnst mér ég verða að koma hingað upp og lýsa mikilli ánægju með málið. Ég vil líka benda á það sem fram kemur í nefndarálitinu að talað er um að menntun ljósmæðra á Íslandi standi mjög framarlega í alþjóðlegum samanburði, og ég veit að svo er. Hér er þessi fagstétt ljósmæðra búin að ljúka fyrst hjúkrunarfræðiprófi áður en stétt þeirra bætir svo við sig, þó að það sé ekki skilgreint sérstaklega sem mastersgráða, þá er það auðvitað ígildi slíks með því námi sem leggst ofan á hjúkrunarfræðina. Ég tel mjög mikilvægt að við stígum þetta skref.

Ég hefði reyndar fyrir mína parta viljað sjá okkur ganga jafnvel enn lengra í þessum efnum. Þá er ég að vísa í það fyrirkomulag sem tíðkast í Bandaríkjunum þar sem hjúkrunarfræðingar taka ákveðið nám ofan á hjúkrunarfræðinám og hafa þá réttindi til að skrifa út lyf innan ákveðinna marka. Ég hef fylgst svolítið með þessu í Bandaríkjunum, þekki einn hjúkrunarfræðing sem lærði hér og tók svo þetta viðbótarnám í Bandaríkjunum.

Mér þykir í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í heilbrigðiskerfinu, okkur vantar hjúkrunarfræðinga, okkur vantar meira af heilbrigðismenntuðu starfsfólki yfir höfuð, þá sé eðlilegt að horfa til þeirra sem mennta sig til þessara starfa að gefa þeim aukin tækifæri til framgangs í starfi með aukinni menntun og aukinni ábyrgð.

Ég held líka að í þessu geti falist ákveðin hagræðing innan heilbrigðiskerfisins, eins og komið er inn á hér. Það er auðvitað ljósmóðirin sjálf, og ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið varðandi hjálpartækin, en ég ímynda mér að það sé ljósmóðirin sjálf sem þekkir best til konunnar og stöðu hennar og þá er auðvitað eðlilegast að sá heilbrigðismenntaði einstaklingur hafi leyfi til að sinna henni að sem mestu leyti en sé ekki að hlaupa yfir í næstu skrifstofu og láta einhvern lækni skrifa upp á eitthvað sem þekkir í rauninni ekkert endilega til aðstæðna viðkomandi konu. Með þessu er ég alls ekki að gera lítið úr læknum eða menntun þeirra, sem er auðvitað líka gríðarlega mikilvæg fyrir heilbrigðiskerfið.

En ég, eins og ég hef sagt áður, lýsi stuðningi mínum við frumvarpið og að það fari í gegn með þessum hætti. En ég vil líka hvetja okkur öll til að fylgjast vel með hvernig þessum breytingum reiðir af og með það kannski fyrst og fremst í huga hvort eðlilegt sé að stíga fleiri skref í kjölfarið.