149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

lyfjalög og landlæknir og lýðheilsa.

266. mál
[12:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að í andsvarinu hafi ekki falist bein spurning. En ég tek undir og er sammála því að við þurfum auðvitað að fara varlega í þessi mál og fara mjög vel yfir þau.

En mig langar, vegna þess að hv. þingmaður er nú jafnframt læknir, að nefna eitt dæmi sem ég leyfi mér að kalla fáránleikann í íslensku heilbrigðiskerfi, þegar öldruð kona inni á hjúkrunarheimili er með stokkbólginn fót og kalla þarf til hjúkrunarfræðinga og það eru eiginlega allir vissir um að mjög líklega sé um að ræða blóðtappa. Læknar bregðast við með því að gefa blóðþynnandi lyf en engu að síður er eðlilegt þegar helgin er liðin, nokkrir dagar liðnir, að fara í myndatöku til að sanna það hvort um blóðtappa hafi verið að ræða. Viðkomandi, öldruð kona, er þá flutt með sjúkrabíl niður í Domus Medica þar sem farið er í risastórt tæki til að sannreyna að um blóðtappa hafi verið að ræða, jafnvel þó að það sé búið að gefa blóðþynnandi lyf og þar af leiðandi meðhöndla einkennin.

Nú er mér sagt að til sé mjög lítið og handhægt tæki sem hjúkrunarfræðingur í Bandaríkjunum — fyrirgefðu, virðulegur forseti, mér skilst að á ensku heiti það „nurse practitioner“, ég veit ekki alveg hvað myndi vera íslenskt orð yfir það, en það er einhver framhaldsmenntun — væri með í skottinu á bílnum og gæti bara kannað stöðu sjúklingsins ef viðkomandi lenti í slíku. En á Íslandi virðumst við ekki einu sinni hafa getað fjárfest í slíku tæki á hjúkrunarheimili þar sem búa 50 eða 100 manns, en í staðinn dreifum við kostnaðinum yfir í sjúkrabílana og með öðru tilheyrandi.

Þetta er bara eitt dæmi, kannski ekki alveg tengt þessu, en þó. Punkturinn sem ég kom með og ástæðan fyrir því að ég er svo hlynnt því að við skoðum þetta frekar er hagræðing í kerfinu. Hvernig veitum við sem besta þjónustu með sem minnstum tilkostnaði? Þar held ég að við höfum bara töluvert mikið af tækifærum.