149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[14:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Við ræðum hér mikilvægt mál. Póstþjónustan í landinu verður að ganga hnökralaust fyrir sig, ég held að við séum öll sammála um það, en vandinn í rekstri þessa fyrirtækis er alvarlegur og það er ekki síst ámælisvert hversu seint málið er kynnt fjárlaganefnd. Það vekur ákveðnar spurningar. Nauðsynlegt hefði verið að fjárlaganefnd hefði kallað eftir greiningarvinnu á rekstrinum frá þar til bærum aðilum eins og Ríkisendurskoðun áður en ákvörðun er tekin um að veita fyrirtækinu þetta lán. Eins og við þekkjum hafa skuldir fyrirtækisins aukist jafnt og þétt frá því að fyrirtækið var gert að opinberu hlutafélagi. Þetta hefur nefnt hér. Óháð úttekt á taprekstrinum hefði átt að fara fram og það hefði einnig átt að skoða ábyrgð stjórnenda fyrirtækisins að mínu mati hvað þetta varðar.

Rekstur þessa fyrirtækis er núna kominn í þrot, eins og við þekkjum, og það er verið að senda reikninginn á skattgreiðendur. Á fyrri stigum hefði átt að grípa til aðgerða. Þessi vandi er ekki til kominn á einni nóttu. Auk þess þarf að fara yfir fjárfestingar fyrirtækisins á undanförnum árum.

Forstjóri fyrirtækisins hefur sagt að bréfum hafi fækkað langt umfram það sem reiknað var með og þar með drógust tekjur saman sem því nam. Tekjurnar áttu m.a. að standa undir kostnaði við póstþjónustu. Þá setur maður spurningarmerki við það hvernig áætlanagerð innan þessa fyrirtækis er háttað þegar það verður svona mikið frávik frá tekjuáætlun. Jafnhliða ákvörðun um afnám einkaréttar er sérstaklega brýnt að svara því hvernig leysa eigi þessa ófjármögnuðu alþjónustubyrði sem fylgir rekstrarleyfi Íslandspósts.

Það verður að segja það, frú forseti, að umgjörðin um þetta mál hefur öll verið í ólestri og engan veginn í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.