149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[14:27]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir mjög góða umræðu um þetta mikilvæga mál um leið og ég fagna að sjálfsögðu því að hér sé í vændum afnám á einkarétti á póstþjónustu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við komum hér á samkeppni eins og á sem flestum sviðum samfélagsins. Samkeppni leiðir að mínu viti alltaf til einhvers góðs, leiðir til hagkvæmari þjónustu, gjarnan betri þjónustu, og þau rök sem notuð hafa verið fyrir einkaréttinum hér líkt og víða annars staðar eru löngu úr sér gengin.

Um leið og ég fagna því einlæglega er auðvitað líka mjög mikilvægt að tryggja að hér verði búið svo um hnútana að það verði raunveruleg samkeppni og helst um allt land. Þess vegna velti ég upp þeirri spurningu hvort þyrfti að koma á einhvers konar flutningsjöfnun til að tryggja að það sé raunverulega hægt að bjóða í þjónustu um allt land, ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu og mögulega Eyjafjarðarsvæðinu sem eru þau svæði sem liggur í augum uppi að yrði samkeppni á. Við viljum auðvitað tryggja að þetta sé sem víðast.

Það er líka ástæða til að skoða vandlega hvort skýringar félagsins sjálfs á ástæðum taprekstrarins eigi við rök að styðjast. Það hefur verið gagnrýnt af hálfu keppinauta að félagið standi í skipulögðum undirboðum, m.a. endurteknar kvartanir til samkeppnisyfirvalda, og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að kanna hvar rót vandans liggur í raun, hver sé ástæða þessarar erfiðu stöðu fyrirtækisins. Þess vegna hefur þingflokkur Viðreisnar ákveðið að fara fram á það í þinginu að gerð verði sérstök óháð úttekt á rekstri Íslandspósts þar sem farið verði vandlega yfir rót þessa rekstrarvanda. Hvernig hefur aðskilnaði milli samkeppnisrekstrar og einkaréttar verið háttað hjá fyrirtækinu? Er það á hreinu að einkarétturinn hafi ekki verið að niðurgreiða samkeppnisrekstur? Hvar liggur ábyrgðin? Hefur eftirliti verið sinnt nægjanlega vel? Ég held að það sé mjög mikilvægt að við fáum skýr (Forseti hringir.) og greinargóð svör við þessum spurningum.