149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek undir það með honum að vitaskuld er sjúkraþjálfun mjög mikilvæg og við eigum að leitast við að hjálpa þeim sem á henni þurfa að halda sem frekast er unnt. Það er samfélaginu öllu til góða. Það sem gagnrýni mín lýtur fyrst og fremst að er að þetta fer næstum hálfan milljarð fram úr sem þarf þá að leggja út fyrir. Það eru miklir peningar. Þá vísa ég til þess, samkvæmt lögum um opinber fjármál og ábyrgð ráðherra á málaflokknum, að þegar ráðherra verður uppvís að því að fjárheimildir fari verulega fram úr ber honum að grípa til ákveðinna aðgerða samkvæmt lögunum og reyna að stýra því þannig að lágmarka þá framúrkeyrslu sem getur orðið. Ég held að það hljóti að vera einhvers konar samgangur milli fjármálaráðherra og velferðarráðherra, að þeir setjist þá yfir stöðuna og fyrst og fremst sé hægt sé að áætla tiltölulega raunhæfar upphæðir í fjárlögum, að þær þurfi ekki að koma alltaf í fjáraukanum. Mönnum er einhvern veginn gefið tækifæri til að taka málið ekki nægilega alvarlega að mínum dómi. Við megum ekki gleyma því að það er ráðherra sem ber ábyrgð á málaflokknum og, eins og ég sagði áðan, að reglurnar eru til að virða þær. Það samræmist ekki lögunum að grípa ekki til neinna aðgerða.