149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[16:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er í hópi þeirra þingmanna sem höfðu vonast til að fjárauki sem þessi heyrði sögunni til, að með lögum um opinber fjármál værum við búin að taka á þessum ósið með því að koma fyrir sérstökum almennum varasjóði í fjárlögum. Það hefur því miður ekki raungerst. Það sem mér þykir slæmt við þetta, bæði fjáraukann núna í ár og ekki síður fjárauka þessarar sömu ríkisstjórnar fyrir ári, er að mér sýnist tilhneigingin vera alveg sú sama og áður, að því svigrúmi sem skapast í afkomu ríkissjóðs, sérstaklega á tímum uppsveiflu þegar tekjur reynast aðeins meiri en ráð var fyrir gert í fjárlögum, er jafnharðan eytt í fjárauka. Þá er sópað upp ýmsum verkefnum sem skapa um leið ákveðið og meira svigrúm í fjárlögum næsta árs og þá þarf ekki að verja þessum fjármunum af fjárlögum næsta árs.

Ég óttast að þessi vinnubrögð séu ekkert að breytast. Þegar ég horfi á þá útgjaldaliði sem hér er um að ræða, og þá tek ég vissulega til hliðar tæknilegar breytingar eins og lífeyrisskuldbindingar og breytta meðhöndlun á skattkröfum, standa eftir u.þ.b. 8 milljarðar kr. sem ég fæ ekki séð með góðu móti að standist 26. gr. um skilyrði þess að þau komist inn á fjárauka. Ég held að flest þessara atriða, ef ekki öll, hefði einfaldlega mátt máta inn í fjárlög ársins 2019 í stað þess að koma með þau fram í fjárauka fyrir árið 2018. Ef við tökum það síðan saman með almenna varasjóðnum, sem er auðvitað ætlað að taka á því sem óhjákvæmilegt er, þurfum við að hafa í huga að þessi ríkisstjórn tók þá ákvörðun um mitt ár að verja drjúgum hluta þessa almenna varasjóðs til nýrra verkefna, til viðhalds í vegakerfinu hjá okkur. Það eru vissulega brýn verkefni en þá mætti spyrja sig: Hefði ekki á sama tímapunkti mátt taka ákvörðun um að fresta öðrum verkefnum eða færa fjármuni til? Það var ekki gert.

Þá skulum við velta fyrir okkur hvað felist í 26. gr. laga um opinber fjármál. Þar segir:

„Ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum þessum.“

Getum við sem sitjum í fjárlaganefnd haft sæmilega sannfæringu fyrir því að þessi skilyrði séu uppfyllt? Það gafst eiginlega enginn tími í fjárlaganefnd til að ræða þetta. Upplýsingar um þessi útgjöld og rökstuðningur fyrir þeim voru af ákaflega skornum skammti fyrir nefndina til að leggja mat á þetta. Þó er rétt að geta þess að þrátt fyrir þann stutta tíma sem við fengum til að fara yfir málið, mjög takmarkaðar gestakomur, einvörðungu fulltrúar fjármálaráðuneytisins komu fyrir nefndina, er ágætt að hafa í huga að Ríkisendurskoðun náði þó að skila umsögn um málið. Í umsögn Ríkisendurskoðunar segir, með leyfi forseta:

„Almennt má segja um frumvarp það sem hér er til umsagnar að í því er ekki verið að breyta heildarfjárheimildum einstakra málefnasviða heldur eru flestar breytingar vegna millifærsla frá einum málaflokki til annars eða innan málaflokka, svo sem á milli framlags- og tilfærsluliða. Eftir sem áður er að finna dæmi um auknar fjárveitingar til að mæta útgjöldum sem vandséð er að séu tímabundin, ófyrirséð og óhjákvæmileg innan fjárlagaársins, og ekki hefði verið unnt að bregðast við þeim með öðrum úrræðum sem tilgreind eru í lögunum, svo sem varasjóðum og millifærslu fjárheimilda innan málaflokka. Dæmi um þetta er 83,3 millj. kr. hækkun á fjárheimild málefnasviðsins 04.10 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála; 29,7 millj. kr. vegna 10.30 Sýslumenn; 45,8 millj. kr. vegna tveggja verkefna undir 11.30 Stjórnsýsla samgönguráðuneytis; 469 millj. kr. vegna 24.30 Sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun; og 267,6 millj. kr. vegna 32.30 Stjórnsýsla velferðarmála.“

Þess vegna vakti furðu mína að sjá ekki minnst einu orði á þetta í nefndaráliti meiri hlutans. Hvorki er minnst á þessa umsögn Ríkisendurskoðunar né nokkuð brugðist við henni í álitinu. Það þykir mér gagnrýnivert því að hér tel ég einmitt að Ríkisendurskoðun sé að benda á að við séum ekki að fara eftir lögunum með þessum fjárauka. Raunar bætir síðan meiri hluti fjárlaganefndar um betur með því að bæta við viðbótartillögum til útgjalda sem ég hef ekki heldur séð neinn rökstuðning fyrir hvernig passi inn í áðurnefnd skilyrði laga um opinber fjármál. Mér þykir þetta miður því að lögum um opinber fjármál var ætlað að aga ríkisfjármálin til. Til að sá agi haldi eða sé í raun og veru fyrir hendi verðum við að virða og skerpa á þeim grundvallaratriðum sem sett eru fram í lögunum. Það grundvallaratriði sem vísað er til í 26. gr., að hvaða skilyrðum uppfylltum sé hægt að leggja fram aukin útgjöld í fjárauka og hvernig hægt sé að beita varasjóði, skiptir gríðarlega miklu máli inn í framtíðina þannig að við hverfum í raun og veru frá þeim ósið fyrri ára að eyða bara því svigrúmi sem skapast í afkomu ríkissjóðs á hverjum tíma yfir í það að við séum raunverulega að grípa til nauðsynlegra og óhjákvæmilegra úrræða sem ekki verður brugðist við með neinum öðrum hætti.

Ég ætla bara að fullyrða hér að fyrir nefndinni var ekki fluttur neinn rökstuðningur um það hvaða annarra leiða hefði verið leitað til að bregðast við þessum útgjöldum, hvort þau hefðu verið fullkomlega óhjákvæmileg á þessum tímapunkti, hvort færa hefði mátt þau yfir á næsta fjárlagaár og hvort ekki hefði mátt hagræða með einhverjum hætti á móti. Ég segi bara að það er ekki nokkur leið að staðhæfa að þessi fjáraukalög séu í samræmi við 26. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, sér í lagi þegar horft er til þess að Ríkisendurskoðun gagnrýnir þetta á sinn kurteislega hátt, myndi ég segja, mjög harðlega. Þeirri gagnrýni er í engu svarað í nefndaráliti meiri hluta. Það þykir mér miður.

Ég held að við hljótum að þurfa að horfa til þess hvernig við ætlum að móta þetta fyrirkomulag áfram þegar horft er til þess hvernig varasjóði er síðan beitt. Sama gagnrýni hefur komið upp um beitingu varasjóðs, hvort veiting hans rúmist innan ramma laga um opinber fjármál eða ekki, en ef þetta eiga að vera vinnubrögðin, að varasjóðnum sé varið í pósitífar, sjálfstæðar ákvarðanir til útgjaldaaukningar innan ramma hins almenna varasjóðs og nýjar útgjaldaákvarðanir ráðherra og síðan komið til þingsins og óskað eftir fjárauka til að bregðast við hinu óhjákvæmilega, er það mjög umhugsunarvert. Kannski væri bara miklu betra að taka einfaldlega heimild um almennan varasjóð út. Þá skulum við hafa fjáraukann áfram af því að sú aðferðafræði sem hér er dregin upp af ríkisstjórninni, að taka t.d. sjálfstæðar ákvarðanir um aukin fjárframlög til Vegagerðar án þess að gera minnstu tilraun til að mæta þeim með einhverjum öðrum hætti en að draga beint á varasjóðinn, hafa síðan ekki efni á því sem þau telja vera óhjákvæmilegar aðgerðir í lok árs og koma þá með frumvarp til laga um fjárauka, þykja mér ótæk vinnubrögð.

Ég nefni það viðbótardæmi að í lögum um fjárauka er t.d. beðið um viðbótarfjárframlag til atvinnuleysistrygginga. Hæstv. félagsmálaráðherra tók þá ákvörðun um mitt ár að hækka viðmiðunarfjárhæðir atvinnuleysisbóta með þeirri fullyrðingu að fyrir þessu væri til nægt fé en síðan er sami ráðherra eða sama ráðuneyti mætt hér undir lok árs til að biðja um viðbótarfjárframlög í fjárauka til að mæta útgjaldaskuldbindingum. Þetta þykja mér ekki fyrirmyndarvinnubrögð.

Við getum horft á títtnefnt kirkjujarðasamkomulag. Í því er ekkert óvænt eða ófyrirséð. Við höfum gert þetta árlega um allnokkurt skeið. Ég segi ekki að það hefði verið til mikilla bóta að liðurinn hefði komið af almennum varasjóði en það hefði kannski verið lítillega skárra. Hann hefði auðvitað átt að vera á fjárlögum. Við afgreiddum hann í fjárauka fyrir ári á sama tíma og við afgreiddum fjárlög. Það hefði væntanlega verið vænlegast að taka þetta inn á fjárlög þessa árs.

Fleiri svona liði mætti tína til. Ég ætla ekki að tyggja þá upp hér hvern fyrir sig en ég staldra enn og aftur við það sem veldur mér vonbrigðum, hvernig meiri hluti fjárlaganefndar tekur á þessu máli. Ég hefði viljað að við hefðum tekið okkur lengri tíma í yfirferð yfir fjáraukann, að við hefðum krafist ítarlegri rökstuðnings af hálfu ráðuneytanna á því hvað var gert til að reyna að forðast það að leita heimildar í fjárauka og að ráðuneytin hefðu þá bara hvert fyrir sig komið fyrir fjárlaganefnd til að útskýra og rökstyðja málflutning sinn. Mér er mjög annt um það aðhald sem á að vera í lögum um opinber fjármál. Mér finnst að með framkvæmd bæði þessarar miklu útgjaldaaukningar sem er í fjárlögunum núna og hvernig grundvallargildi laganna um sjálfbærni, festu og fyrirsjáanleika eru teygð og toguð í meðhöndlun meiri hlutans séum við að vatna þessi nýju lög ansi hratt út þannig að aðhald þeirra og agi verður mun minna en að var stefnt.