149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ærleg svör hv. þingmanns. En ég hjó eftir því að hann talaði um óhjákvæmileg útgjöld. Ég hlýt þá að spyrja aftur, eins og ég spurði í fyrra andsvari: Hvernig sá hv. þingmaður það fyrir sér að taka á því í fjárlögum sem á eftir fylgdu ef sú ríkisstjórn hefði setið áfram? Hefur hv. þingmaður efni á þeirri hörðu gagnrýni sem hann flytur á fjáraukalagafrumvarpið sem við ræðum hér? Ég er á sama stað staddur og hv. þingmaður þegar hann segir að við viljum meiri aga, að við viljum vera fastari fyrir hvað varðar okkar fjárstjórnarvald. En við eigum líka að kannast við þau verkefni sem við höfum staðið frammi fyrir sjálf og vera sanngjarn í þeirri gagnrýni sem við setjum fram.