149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[19:03]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisgott andsvar. Fólk lítur auðvitað sínum augum á sinn bókakost. Ég held að mjög margir séu sömu skoðunar og hv. þingmaður, að ekki sé til nóg af góðum bókum í kringum mann og alltaf sé gott að geta seilst í alls konar bækur. Við vitum að bókasöfnun hefur verið ástríða, eiginlega held ég að megi segja frá því að Íslendingar byrjuðu að rita Íslendingasögurnar. Það hefur þótt gott á menningarheimilum að eiga mikið af bókum og flest íslensk heimili, sérstaklega í fyrri tíð, eru full af bókum.

Ég hugsa, án þess að ég vilji nú taka sérstaklega stórt upp í mig, að bækur og bókaskápar taki færri veggi hlutfallslega á heimilum yngra fólks en eldra, en ítreka mjög að það er algerlega sagt án ábyrgðar og auðvitað eru margar undantekningar frá því. Ég er þeirrar gerðar að ég get ekki hent bók. Það er mér alveg lífsins ómögulegt af því að bók er bók og bókum hendir maður ekki. Ég er heppinn, ég er með stóra geymslu. Svo koma kynslóðirnar og fara og það safnast upp bækur þannig að ég á mjög veglegt bókasafn sem er komið í geymslu og er nú satt að segja ekki mjög mikið notað. En þær eru þar. Ég hendi þeim ekki.