149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[19:27]
Horfa

Snæbjörn Brynjarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkru síðan, bara núna í nóvember og október síðastliðnum, ferðaðist ég um landið allt, las m.a. upp á Vestfjörðum og Austfjörðum, fyrir ungmenni í grunnskólum landsins. Það var mjög gaman. Ég uppgötvaði þar að í hér um bil flestum skólum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, eru yndislestrartímar og mikið um að krakkar séu að lesa alls kyns bækur, ekki bara á íslensku, heldur líka á ensku í tímum. Það er frábært framtak. Skáld í skólum, sem er á vegum Rithöfundasambandsins, er virkilega frábært framtak og gefur rithöfundum kost á því að kynnast sínum bestu lesendum.

Mig langar að rifja aðeins upp að á gullöld íslenskra bókmennta, þegar Íslendingasögurnar voru skrifaðar, sem eru jú kannski ástæða þessa mál okkar lifir enn þá og við höfðum fyrir því að krefjast fullveldis og sjálfstæðis, var enginn virðisaukaskattur á bókunum sem skrifaðar voru, hvorki á blekinu, kálfskinninu, né á verktakavinnunni sem í verkið fór. Mikið vildi ég óska að svo væri enn þá. Ég held nefnilega að það sé pínulítill heigulsskapur fólginn í því að gefa eftir kerfinu og taka hreinlega ekki virðisaukaskattinn af. Ég hef óttast að úthlutunin á þessum styrkjum geti orðið of flókin og það sé of mikil nefndarvinna og að einfaldari lausnir henti betur til lengri tíma. Þá held ég að við ættum að horfa til annarra Vestur-Evrópuþjóða sem lagt hafa niður virðisaukaskatt á bókum og eiga ekki í neinum vandræðum með það frekar en við eigum í vandræðum með að leggja niður virðisaukaskatt á laxveiðileyfum eða eitthvað svoleiðis.

Það er milliliðurinn sem þetta frumvarp fókuserar mjög mikið á, þ.e. á bókaútgefendurna. Ég hef pínulitlar áhyggjur af því að með slíkum niðurgreiðslum ýtum við undir að fólk auki kostnað við gerð bókanna, bara til að fá sem mest út úr þessu og geta nýtt það í starfskraft innan húss, sem eru kannski mjög jákvæð áhrif því að ef þörf er á einhverju í íslenskum bókabransa eru það góðir ritstjórar. Þeir eru ekki nógu margir í hlutfalli við höfundana. Ég væri alveg til í að sjá fleiri starfandi ritstjóra á landinu og öflugri ritstjórn, ekki svo að skilja að minn eigin ritstjóri sé ekki alveg frábær. Við eigum alveg frábæra ritstjóra sem eru starfandi núna en það verður að segjast eins og er að þetta eru fáir starfsmenn.

En af hverju held ég að bara að hreinlega afnám virðisaukaskatts væri betri leið? Ég held að það sé sanngjarnara, bæði gagnvart bókabúðunum og svo líka rithöfundunum sjálfum, því að í augnablikinu fá rithöfundar í kjarasamningum hlutdeild af heildsöluverðinu og ef þessi styrkir verða til þess að ýta bókaverði niður í heildsöluverði frekar en verði í búðum hef ég áhyggjur af því að við berum minna úr býtum. Ég hef miklar áhyggjur af því af því að það er mikil fátækt meðal listamanna á Íslandi í dag. Það eru margir rithöfundar sem eru fátækir og sumir þeirra eru jafnvel þjóðþekktir. Þetta er rosalegt hark. Kannski þurfum við að taka aðra umræðu um að hækka listamannalaun þannig að hægt sé að lifa á þeim. Við þurfum ekki að vera hrædd við það því að meiri hluti þjóðarinnar er hlynntur listamannalaunum, fólk vill styrkja íslenska rithöfunda, myndlistarmenn, tónlistarmenn o.s.frv. Við þurfum heldur ekki að vera hrædd við einhverja örfáa „netkommentera“ í þessum efnum. Við vitum líka að svona styrkir borga sig margfalt til baka, ekki bara í aukinni framleiðni heldur líka í því að við eignumst ódauðleg listaverk og læsari börn.

Mig langar líka að koma inn á lestur barna. Við megum ekki vanmeta að það er margt jákvætt við nýja miðla. Íslensk börn öðlast nú mikið menningarlæsi. Þau eru örugglega betur læs á myndir en eldri kynslóðir. Þau eru örugglega mjög fín í ensku og við gleymum kannski ákveðnum sviðum þegar við tölum um að vernda íslenskuna. Við gleymum t.d. tölvuleikjum í þessu samhengi. Á sínum tíma var tekin pólitísk ákvörðun um að barnaefni ætti annaðhvort að vera textað eða talsett og var farið í mikið átak þar. Við höfum aldrei spáð í það að ef stór hluti frítíma og lestrartíma fer í að lesa tölvuleiki getum við kannski farið í eitthvert átak á því sviði, bara einfaldlega að skapa meira af íslensku efni sem er aðgengilegt á netinu eða hreinlega að þýða tölvuleiki. Þetta er nokkuð sem við ættum að íhuga alvarlega og skoða hver kostnaðurinn yrði af því. En ég er ekki í vafa um að það myndi bæta íslenskukunnáttu, sérstaklega íslenskra drengja.

En eins og áður sagði hef ég svolitlar áhyggjur af tekjum íslenskra rithöfunda. Ég hef áhyggjur af því að margir íslenskir listamenn lifi undir fátæktarmörkum. Ég held að við sjáum það oft í umræðum um heiðurslaun og svoleiðis að þingmönnum er bent á að einhver mikill, gamall meistari lifi við fátæktarmörk. Það er kannski ákveðin feimni við að ræða það, en við ættum ekkert að vera feimin við að tala um það. Við megum líka gera meira úr heiðurslaunum. Við megum upphefja þá betur sem við heiðrum, jafnvel halda ráðstefnu einhvers staðar á þinginu um ævistarf fólks og kynna virkilega fyrir fólki hvers vegna við stöndum í því yfir höfuð að heiðra fólk með slíkum hætti.

En samvisku minnar vegna get ég ekki í augnablikinu greitt atkvæði með þessu frumvarpi. Mér finnst það einfaldlega ekki nógu gott. Ég held að þetta sé ekki rétt leið, hún er röng. Við ætlum einfaldlega að sleppa virðisaukaskattinum og horfa t.d. til Noregs eða annarra landa sem kaupa upp magn af bókum og dreifa þeim svo út um allt land. Það held ég að sé rétta leiðin í málinu.

Svo getum við líka skoðað ýmsar aðrar leiðir og kannski mætti bæta því við einhverja breytingartillögu við frumvarpið að taka póstinn inn í það. Við vorum að ræða póstinn fyrr í dag. Ég veit það t.d. af reynslu minni af því að búa í Frakklandi að þar fékk ég afslátt þegar ég var að senda bókakassa heim til Íslands, því að Frakkar eru með þannig lög að þeir niðurgreiða póstsendingar ef það eru franskar bókmenntir. Það myndi örugglega gagnast skólabókasöfnum úti á landi eða bara fólki úti á landsbyggðinni, að ég tali nú ekki um fólk sem vill nýta sér jólabókaflóðið til að senda einhverjum fallega pakka og góða jólagjöf.