149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

þinglýsingalög o.fl.

68. mál
[11:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð málið, þetta er skref í rétta átt. Þetta er ekki þvílíkur fullnaðarsigur sem maður myndi kannski búast við eftir mjög grófa yfirferð á málinu. En þetta er þó skref í rétta átt. Mig langar bara að árétta að fram kom á fundum nefndarinnar að ef ekki er vandað til undirbúnings er hætt við mistökum þegar kemur að því að innleiða rafrænar aðferðir í þinglýsingum.

Sömuleiðis vil ég sérstaklega árétta mikilvægi þess að taka tillit til tæknilegra atriða, og tala ég af reynslu sem forritari. Þegar farið er í að innleiða einhverjar góðar hugmyndir án þess að bera virðingu fyrir því að tæknin sjálf þarf að vera í lagi, verða oft slys sem er erfitt að bæta. Mig langaði að nefna það sérstaklega vegna þess að það er nokkuð sem kemur upp aftur og aftur, bæði hér og víða í stofnunum samfélagsins.

Eins og ég sagði áður styð ég þó málið.