149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:29]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um húsnæðismál. Það vill nefnilega svo til að aðgerðaáætlun Samfylkingarinnar í húsnæðismálum var rædd á fundi velferðarnefndar í morgun. Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar, atvinnulífsins og Mannvirkjastofnunar lýstu þar yfir áhuga og jákvæðni í garð þeirra tillagna. Þetta eru tillögur sem Samfylkingin lagði fram í haust í formi þingsályktunartillögu í átta liðum. Ríkisstjórnin hefur algjörlega hunsað þær tillögur þrátt fyrir að henni verði tíðrætt um samráð og samvinnu þvert á flokka.

Forsætisráðherra lýsti nokkrum markmiðum ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum sem ríma vel við tillögur Samfylkingarinnar, sem er mjög gott. En mig langar að spyrja hvort aldrei hafi hvarflað að hæstv. forsætisráðherra að nýta tillögur Samfylkingarinnar, sem nú eru í meðförum þingsins, eða yfir höfuð að hleypa stjórnarandstöðunni að borðinu í svo veigamiklu máli.

Mig langar líka að spyrja af hverju í ósköpunum sú vinna hefur dregist (Forseti hringir.) svona lengi þegar staðan var ljós strax í haust.