149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið þó að ég leyfi mér að gera athugasemd við þá orðanotkun að tala um „svokallaða samráðsfundi“. Þetta hafa svo sannarlega verið samráðsfundir sem ég þekki ekki fordæmi fyrir í minni sögu á Alþingi. Ég vil ítreka það sem ég sagði í ræðu minni, það er mjög mikilvægt í framhaldinu að formfesta með skýrari hætti umrætt samtal aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.

En það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ég nefndi þrjú atriði sem kannski hefði borið hvað hæst í þessu samtali. Það þýðir ekki að önnur mál hafi ekki verið til umræðu. Þeirra á meðal hafa svo sannarlega verið málefni verðtryggingar og sömuleiðis hefur húsnæðisliður í neysluvísitölu verið ræddur. Það liggur fyrir að í undirbúningi hefur verið greinargerð um það mál af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytis. Ég tel að við eigum von á henni í þessum mánuði, janúarmánuði. Það var von á henni í desember en hún frestaðist fram í janúar. Ég vænti þess að í kjölfarið munum við taka þau mál til umræðu hér á þingi.