149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:40]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Hæstv. forseti. Rúm sex ár eru liðin síðan fram fór þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem þjóðin samþykkti að frumvarp stjórnlagaráðs yrði lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá, eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi hér áðan. Niðurstöður þeirrar atkvæðagreiðslu hafa náttúrlega, eins og við flest vitum, verið svo gott sem hunsaðar allar götur síðan. Stjórnarskrá er skrifuð af þjóðinni og afhent ráðamönnum sem aðhaldsplagg fyrir þá til þess að vinna og starfa eftir. Ráðamenn eiga ekki að vera að krukka í plagginu sjálfir, það er mjög óeðlilegt að þeir geri það. Eins er það eiginlega tvöfaldur glæpur að þeir geri það undir skorti á gagnsæi en það er að gerast núna.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún hafi áform uppi um að bæta í hið minnsta úr því er varðar gagnsæið. Þá væri gaman að það yrði afturvirkt eins og kostur er.