149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:49]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo að ekki liggur fyrir ákvörðun um það hvernig nákvæmlega verður staðið að sölu á eignarhlutum í bönkum. Það liggur hins vegar fyrir að ríkisstjórnin er sammála um að það sé skynsamlegt markmið og gott að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Þar höfum við talað um forgangsröðun. Það útilokar til að mynda ekki að Íslandsbanki verði allur seldur á kjörtímabilinu ef kaupandi finnst, af því að hv. þingmaður spurði um hluta. En þetta er stefnan. Við þurfum svo auðvitað að taka mið af aðstæðum hverju sinni.

Hv. þingmaður spurði áðan um veggjöld. Ekki er fjallað sérstaklega um veggjöld í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Hins vegar hefur hæstv. samgönguráðherra sett af stað skoðun á því hvernig við getum horft til þess annars vegar að flýta framkvæmdum til að mæta þeirri miklu uppsöfnuðu þörf sem er fyrir hendi í samgöngukerfi landsmanna og hins vegar hvernig við ætlum að takast á við þá staðreynd að við (Forseti hringir.) horfum á breytt fjármögnunarkerfi samgangna. Mér finnst eðlilegt að við tökum það til góðrar umræðu á vettvangi þingsins og finnum (Forseti hringir.) bestu leiðirnar.

Hvað varðar hvalveiðar (Forseti hringir.) hef ég sagt að mjög mikilvægt er að meta grundvöll hvalveiða við Íslandsstrendur. (Forseti hringir.) Ég veit að skýrslan sem hv. þingmaður nefndi verður til umræðu í atvinnuveganefnd á morgun (Forseti hringir.) og ég vænti þess að hún verði tekin (Forseti hringir.) til ítarlegrar umræðu í samfélaginu. — Afsakið, herra forseti.