149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur. Aðeins til að ljúka því sem ég sagði áðan um neysluviðmiðin eða framfærsluviðmið velferðarráðuneytisins. Þau eru kannski ekki nákvæmlega það sem hv. þingmaður spurði um því að þau eru meira viðmið sem skilgreina dæmigerða neyslu. Eins og ég sagði áðan skilgreina þau ekki t.d. hvað telst vera fátækt eða ríkidæmi ef út í það er farið.

En listamannalaun. Já, ég vil nefna það að listamannalaun eru ekki skattfrjáls. Þau eru verktakagreiðslur áætluð í verkefni, eins og ég þekki þennan heim. (Gripið fram í.) — Já, já, þau eru hins vegar verktakagreiðslur og af þeim greiða listamenn skatt. Þau eru veitt til þriggja mánaða, sex mánaða, eða níu mánaða — það eru ekki margir sem fá laun lengur en í ár — og eru eyrnamerkt tilteknum verkefnum. Hv. þingmaður spyr: Er það eitthvað sem við getum heimfært á alla? Ja, það er a.m.k. allt önnur hugsun á bak við starfslaun listamanna því að þau snúast um að einhver einstaklingur eða hópur geti lokið við tiltekið verkefni og fái til þess tilteknar greiðslur sem, eins og ég sagði, greiddir eru skattar af.