149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:07]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg með það á hreinu hvernig ég á að bregðast við þessu andsvari Brynjars Níelssonar nema mér er það ljóst að hann var ekki að öllu leyti ánægður með ræðu mína. [Hlátur í þingsal.] Ég get í sjálfu sér ekki gert neitt annað en að harma það.

Hann hóf mál sitt á því að segja að ég væri hér sem fulltrúi einhvers sem hann kallaði „góða fólkið“ sem er reyndar hugtak sem ég hef aldrei alveg skilið, þ.e. hvernig hægt er að nota orð eins og „góður“ sem einhvers konar skammaryrði. Ég hef einhvern veginn alltaf staðið í þeirri trú að maður eigi að keppa að því að vera góð manneskja, það sé eftirsóknarvert í sjálfu sér að vera góð manneskja, en ég þykist vita að hv. þingmaður hafi í huga að ég þykist bara vera góð manneskja en sé það ekki í raun og veru. Það má vel vera að það sé mat hv. þingmanns en eins og fyrr segir get ég í sjálfu sér ekki gert neitt við því.

Hvað varðar skoðanir hv. þingmanns á aðild Íslendinga að Evrópusambandinu verð ég að segja að þær voru mér áður kunnar [Hlátur í þingsal.] og ég tel að ég geti ekkert gert til að breyta þeim skoðunum. Ég hlýt að nefna að ég átta mig á því að ræða mín kann að hafa verið nokkuð myrk á köflum, (Forseti hringir.) og jafnvel ekki öllu leyti skiljanleg, en ég talaði þó hvergi í þeirri ræðu um Evrópusambandið.