149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð líka að taka undir að þetta var heldur myrk ræða og ekki bara á köflum, mér fannst hún það heilt yfir þegar talað var um að nánast allt væri á heljarþröm. Ríkisstjórnin hefur setið í rétt rúmlega ár. Hvað höfum við gert? Eitt af því sem hv. þingmaður nefndi áðan voru barnabætur. Hann getur ekki horft fram hjá því að 2.200 fleiri aðilar bættust í þann hóp sem fær barnabætur nú um áramótin. Einstætt foreldri með 300.000 á mánuði og tvö börn, annað yngra en sjö ára, fær núna ríflega 114.000 kr. meira en það fékk áður. Foreldrar í sambúð með í kringum 600.000 á mánuði með tvö börn á sama aldri hækka um 170.000. Allt hlýtur þetta að skipta máli.

Persónuafsláttinn hækkuðum við umfram verðlag. Komugjöld eru felld niður hjá eldri borgurum og öryrkjum. Við lögðum til mikla peninga í tannlækningar eldri borgara og öryrkja. Ég get því ekki verið sammála hv. þingmanni í því að allt þetta fólk sé á heljarþröm.

Ég hef setið nokkuð lengi í fjárlaganefnd og kom meira að segja inn í hana áður en ég varð þingmaður, kom sem varaþingmaður. Ég man satt að segja ekki eftir því að jafn fáar stofnanir hafi kvartað yfir því að fjárframlög til stofnana séu ekki sæmileg og að meira að segja þurfti að kalla Landspítalann sérstaklega inn vegna þess að hann óskaði ekki eftir því að fá að koma og sendi ekki inn umsögn. Það hefur ekki gerst frá því að ég tók sæti í fjárlaganefnd 2013.

Þetta er sitt lítið af hverju sem hægt er að tala um sem ríkisstjórnin hefur gert, að ég tali ekki um umhverfismálin, hv. þingmaður, 1,5 milljarðar, 9% aukning. Það hlýtur að vera eitthvað sem við getum glaðst yfir saman.