149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:22]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í mínu fyrra lífi stundaði ég það að skrifa skáldsögur og þá þurfti maður að setja á sig alls konar gleraugu og setja sig inn í alls konar hugarheim. Ég verð þó að játa að ég skrifaði aldrei sögur með Framsóknarmönnum. Ég á það eflaust eftir og það er bæði forvitnilegur hugarheimur og ágætur, held ég, að mörgu leyti. Ég verð að játa að ég get ekki alveg séð heiminn með augum Framsóknarmanna enn sem komið er, hvað sem síðar kann að verða. Ég held mig enn við grein Stefáns Ólafssonar frá 8. janúar sl. sem var í Kjarnanum, sem ég nefndi fyrr í þessum umræðum, þar sem hann talar um að skattlagning á láglaunafólk hafi verið meiri hér á landi en víðast hvar í Evrópu, sérstaklega á Norðurlöndunum. Hann nefnir líka að eignarskattar, skattar á eignir, séu lægri hér en annars staðar á Norðurlöndum. Þetta er kerfi sem við höfum byggt upp á undanförnum áratugum, ekki síst vegna þess að jafnaðarmenn hafa ekki fengið mikið að stjórna hér, og við það kerfi búum við enn.