149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:04]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og alltaf við upphaf nýs árs er sannarlega hollt að taka stöðuna og eins og hæstv. ráðherra fór yfir er sannarlega margt gott sem hefur átt sér stað.

En það hefur líka ýmislegt verra átt sér stað. Tökum sem dæmi stöðu lágtekjuhópa. Eins og sjá má í nýja gagnagrunninum sem hæstv. fjármálaráðherra opnaði nýlega eru hópar sem enn í dag eru með jafn lág laun og þeir voru fyrir 15 árum.

Við þurfum að hlúa að þeim tekjulægstu. Ég myndi gjarnan vilja heyra frá hæstv. ráðherra hvort og hvernig hún sjái fyrir sér að leiðrétta þann ójöfnuð.

Staðreyndin er að íslenskir hátekjuhópar greiða mun lægri skatta af hæstu tekjum sínum en tekjuháir annars staðar á Norðurlöndunum. Hins vegar er meðalskattbyrði lágtekjufólks með hæsta móti. Hæstv. ráðherra talar um mikilvægi þess að viðhalda stöðugleika, viðhalda kerfinu. Það er þó því miður ekki útlit fyrir mikinn stöðugleika fram undan, eins og hæstv. ráðherra nefndi raunar sjálf, hvorki efnahagslega né samfélagslega. Það er sama hversu mikið ríkisstjórnin reynir að hlaupast undan pólitískum álitaefnum, stöðugleiki verður ekki tryggður með því að afneita stöðunni.

Því hlýt ég að velta fyrir mér hvort við munum sjá í fjármálaáætlun breytingar í átt að auknum jöfnuði.

En það var ýmislegt áhugavert sem hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni, þar á meðal hlýt ég að fagna jákvæðni ráðherra gagnvart EES og Evrópusamstarfinu. Ég tek undir með henni að þar er mjög margt jákvætt sem við hljótum að fagna. En áhugavert væri að heyra í ljósi þeirrar umræðu sem þegar hefur átt sér stað í þingsalnum hvernig hún sjái fyrir sér framhaldið, hvort ekki séu áfram tækifæri í þessu og ekki síst í orkumálum.