149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:26]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ágætissvar sem kom svolítið inn á það sem mér finnst heldur skrýtið. Við erum eitt fárra landa, alla vega sem ég veit um, sem hefur aldrei haft iðnaðarstefnu. Það er náttúrlega annað en stóriðjustefna, við höfum haft fullt af slíkum hlutum í gegnum tíðina, en iðnaðarstefna snýst um með hvaða hætti ríkið ætlar að hlúa að atvinnuvegum landsins og framleiðni og hámarka velgengni og verðmæti útflutnings. Við höfum aldrei haft slíka stefnu. Gerð var tilraun til þess árið 1980 eða eitthvað slíkt, líka árið 1981 og svo einhvern tímann tvö þúsund og eitthvað. Þótt oft hafi verið unnið í áttina að því langar mig til að spyrja hvort hæstv. ráðherra væri tilbúin til að boða hér og nú að gerð verði önnur tilraun til að móta iðnaðarstefnu fyrir Ísland, stefnu sem tekur sérstaklega tillit til krafna í umhverfis- og loftslagsmálum og stofnsetur (Forseti hringir.) bæði útflutningsaga og sjálfbærnihefð í íslenskum iðnaði.

Að lokum spyr ég: Telur hæstv. ráðherra að það myndi hafa jákvæð áhrif á getu fyrirtækja í landinu til að keppa á alþjóðavettvangi að taka upp veggjöld?