149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:29]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Staðan í stjórnmálum er nokkuð augljós, finnst mér. Það er nokkurn veginn status quo þannig að ég ætla að fókusera meira á verkin fram undan.

Samfélög manna eru eins mismunandi og þau eru mörg. Öll erum við sammála um mikilvægi þess að tryggja grunnþarfir manneskjunnar en fjölbreytileiki mannkyns undirstrikar líka mikilvægi þess að tryggja raunverulegt frelsi fyrir hvern og einn til að finna sína leið í lífinu. Misskipting gæða, fátækt og frelsisskerðingin sem því fylgir sýnir þó að verulega langt er í land. Hvernig hefur mistekist svona hrapallega að heimfæra vonir og drauma einstaklinga á samfélagið í heild? Ég tel að hluta skýringarinnar sé að finna í mælikvörðum samfélagsins og markmiðum sem snúa helst að efnislegum gæðum.

Eitt helsta markmið samfélags okkar gæti verið að gera hverri einustu manneskju kleift að sækja hamingju sína og láta ljós sitt skína. Sameiginlegum gæðum samfélagsins gæti verið ráðstafað í aðgerðir til að ná fram því markmiði. Samfélagið á að stuðla að því að grunnþörfum okkar sé mætt, en er það að geta séð fyrir sér nóg? Eða viljum við að einstaklingar hafi frelsi til að blómstra, prófa sig áfram og gera mistök, öðlast þekkingu og eflast fyrir vikið? Farvegurinn að aukinni þekkingu er hlaðinn síendurteknum mistökum og stöðugri aðlögun að þeim. Frelsi til að gera mistök án þess að enda í skuldafangelsi er mjög mikilvægt.

Því miður er samfélagsgerð okkar þannig að fáir hafa raunverulega möguleika á því að feta þann veg og ekkert útlit er fyrir breytingar þrátt fyrir að tækniframfarir séu óðfluga að nálgast þann stað að geta veitt fólki svigrúmið sem þarf til að finna sína einstöku leið að lífshamingjunni í stað þess að óttast alltaf næstu afborgun af láninu. Til að tryggja frelsi fólks þurfum við sem leggjum stjórnmálin fyrir okkur að greiða leið samfélagsins að farsælli framtíð í gegnum ólgusjó tæknibreytinga, loftslagsbreytinga, öldrun þjóðar og ójöfnuðar sem hefur aukist í krafti hugmyndafræði sem er löngu hætt að þjóna okkur.

Forseti. Við verðum að tryggja að ungt fólk sjái tækifæri í framtíðinni, sem er ekki raunin nú. Ungt fólk er frumkvöðlar. Ungt fólk býr til ný tækifæri. Ungt fólk skapar verðmæti fyrir samfélagið. Þetta er fólkið sem skapar nýjar tekjur svo hægt sé að huga betur að þeim sem annaðhvort þurfa á aðstoð okkar að halda í samfélaginu eða hafa nú þegar skilað af sér hagsælu og blómlegu ævistarfi. Verkefnið er að ungt fólk sjái tækifæri í framtíðinni, markmiðið er að komandi kynslóðir eigi sér framtíð.

Okkur er öllum umhugað um börnin okkar og hefur hæstv. félags- og barnamálaráðherra sýnt það í verki með þeirri góðu vinnu sem hann hefur sett í gang til að endurskoða barnaverndarmál. Þá finnst mér sérstaklega mikilvægt að við horfum heildrænt á þann málaflokk og hugum að því að besta leiðin til að tryggja vellíðan barnanna okkar er að tryggja vellíðan foreldranna og um leið fjölskyldunnar. Hamingjusamt og gæfuríkt heimili er besta og mikilvægasta forvörnin. Þetta gerum við með því að hlúa vel að konum á meðan þær ganga með börnin sín því að við vitum að streita, áhyggjur og depurð móðurinnar hafa neikvæð áhrif á þroska barnsins. Þroski barnsins helst í hendur við tilfinningalíf móðurinnar. Lengjum fæðingarorlofið vegna þess að öll gögn sýna fram á mikilvægi þess fyrir þroska barnsins að eyða tíma með foreldrum sínum fyrstu árin.

Foreldrar veita barninu öryggi. Óhófleg streita barna getur aukið líkurnar á ýmiss konar heilsufarsvandamálum, stuðlað að lélegri námsárangri og haft neikvæð áhrif á þroska barnsins. Færum okkur frá námslánum í átt að námsstyrkjum til að minnka skuldabyrði ungs fólks, veitum því svigrúm til að huga að fjölskyldulífinu og frelsi til að taka fyrstu skref sín á vinnumarkaði út frá eigin hugðarefnum frekar en að þurfa að elta hæsta launaseðilinn. Styttum vinnuvikuna vegna þess að kulnun er að aukast á ógnvænlegum hraða. Fólk hefur allt of lítinn tíma í það sem raunverulega skiptir máli, að rækta fjölskyldutengsl, vinatengsl og áhugamál. Stytting vinnuvikunnar hefur jákvæð áhrif á ánægju fólks, heilsu og framleiðni. Að stytta vinnuviku foreldranna felur í sér styttingu vinnuviku barnanna og gefur þeim verðmætan tíma með foreldrum sínum sem getur komið í veg fyrir vanlíðan barnanna seinna meir.

Tryggjum öruggt húsnæði og efnahagsleg og félagsleg réttindi samlanda okkar. Fátækt felur í sér frelsisskerðingu fyrir þá sem lifa við hana og hefur gríðarlegan samfélagslegan kostnað í för með sér sem mun aðeins aukast ef fátækt fær að grassera áfram. Við þurfum að endurskoða almannatryggingakerfið okkar með það að markmiði að fjarlægja allar þær fátæktargildrur sem leynast þar. Byrjum á þeim augljósustu, eins og krónu á móti krónu skerðingu. Allt þetta fellur þó í skuggann af þeirri staðreynd að ef við höldum áfram eins og við gerum í dag verður ekkert samfélag fyrir komandi kynslóðir til að taka við. Þeir sem hugsa aðeins um frelsi í skattalegu samhengi og niðurstöður dálksins í excel eru að draga úr tækifærum framtíðarinnar. Frelsi til jafnra tækifæra næstu kynslóðar er illsamrýmanlegt auðsöfnun efsta lagsins.

Sá blessaði stöðugleiki sem núverandi ríkisstjórn hefur haft í hávegum er á hraðri niðurleið ef við förum ekki í róttækar breytingar. Það mun ekki duga að koma allri ábyrgð af umhverfis- og loftslagsmálum á herðar neytenda, mengandi iðnaður, fyrirtæki og framleiðendur þurfa að axla ábyrgð og er ábyrgð þeirra mikil. Sökina er einnig að finna hjá þeim sem sitja á endalausum markmiðum um sívaxandi hagvöxt á kostnað alls annars. Hver er samfélagslega ábyrgðin þegar eina markmiðið er aukinn vöxtur? Hún er engin.

Forseti. Við Píratar lögðum í dag fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Frumvarpið byggir á tillögum stjórnlagaráðs ásamt þeirri vinnu sem fór fram á Alþingi í kjölfarið. Frumvarpið felur í sér rökrétt framhald á innleiðingu nýju stjórnarskrárinnar eftir að því var hætt 2013. Þetta er framhald á þeirri vinnu sem Alþingi var falið að vinna í kjölfar þess að meiri hluti landsmanna ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu að hér skyldi setja nýja stjórnarskrá á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs. Þetta er stjórnarskráin sem þjóðin kaus sér. Þingmenn verða að gera sér grein fyrir því að það er ekki þeirra hlutverk að semja stjórnarskrá fyrir Ísland. Eina hlutverk þeirra er að sjá til þess að stjórnarskrá fólksins, meginreglur alls samfélagsins, fái réttmæta meðferð á Alþingi og að þjóðin fái svo að greiða atkvæði um gildistöku eigin stjórnarskrár. Annað ekki. Stjórnarskráin er samin af fólkinu til að tryggja að löggjafarvaldið, dómsvaldið og framkvæmdarvaldið fari ekki út fyrir eðlileg mörk og að eftirlit með ríkisvaldi sé virt. Því er okkur þingmönnum öllum hollt að sýna auðmýkt, átta okkur á því hlutverki sem okkur hefur verið falið og tryggja að frumvarp að stjórnarskrá sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 verði samþykkt. Það er eina rökrétta og siðferðilega rétta niðurstaðan.

Forseti. Við stöndum frammi fyrir einhverjum mestu kjaradeilum síðustu ára, ef ekki áratuga. Lítið þokast í viðræðum atvinnulífsins og launþega og er ákallið um aðkomu stjórnvalda hávært. Ábyrgð ríkisstjórnarinnar og Alþingis hvað varðar úrlausnir í þeim deilum er mikil því að ljóst er að þær verða ekki leystar án aðkomu stjórnvalda. Ef stjórnvöld koma ekki með þær úrbætur sem almenningur og launþegar kalla eftir er hætt við því að verkföll muni leggja samfélagið á hliðina. En það þarf ekki að vera þannig. Við kjörnir fulltrúar getum leitt með góðu fordæmi og haft frumkvæði að því að koma til móts við sanngjarnar og eðlilegar kröfur launþega og almennings. Ef við höfum ekki efni á því þurfum við virkilega að fara að endurmóta hagkerfið til að hvetja til velsældar fyrir alla.