149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:37]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir ágæta ræðu og að mörgu leyti innihaldsríka. Mig langaði að ræða við hana nánar um stjórnarskrána sem þingmaðurinn kom aðeins inn á og mikilvægi þess að þar sé gengið til verka. Ég er sammála hv. þingmanni að við þurfum að taka á þessu vandamáli, ef við getum kallað það svo, að við erum ekki búin að feta þann veg sem breytingar á stjórnarskránni óhjákvæmilega kalla á, við erum ekki enn þá komin þangað, hins vegar er vinna í gangi.

Mig langaði að velta einu upp við þingmanninn og spyr: Er í hennar huga engin leið að hnika neinu til í t.d. þeirri afurð sem varð niðurstaða stjórnlagaráðs á sínum tíma? Ég spyr ekki að ástæðulausu heldur af því að þingmaðurinn gerir sér væntanlega grein fyrir því að þetta mál verður ekki klárað án samþykktar þingsins vegna þess að fyrir liggur sú stjórnarskrá sem við erum með nú þegar. Er að mati þingmannsins engin leið að hnika einhverju til eða gera einhver frávik, þá væntanlega með samkomulagi þingflokksformanna eða þingmanna yfirleitt, í því augnamiði að ná fram því markmiði sem kom fram í atkvæðagreiðslunni um niðurstöðu stjórnlagaráðs, að þjóðin er almennt sammála niðurstöðunum? Almennt dugar kannski (Forseti hringir.) ekki til þegar síðan er búið að kjósa í tvígang eða þrígang til þings.