149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:44]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvelt að vera bæði sammála og ósammála hv. þingmanni. Hún sagði m.a. að ungt fólk ætti sér ekki framtíð á Íslandi. Hún sagði líka að ef fram héldi sem horfði yrði ekkert samfélag til að taka við á Íslandi. Ég held að það sé ekki rétt greining. Það er mjög auðvelt að vera ósammála. Það er líka hægt að vera sammála því að endurskoða þurfi almannatryggingar og stytta vinnuvikuna, þannig er nú jafnvægið í þessari ágætu ræðu.

En ég ætla að koma inn á tvennt, annars vegar varðandi stjórnarskrána. 37% þjóðarinnar, af þeim sem höfðu kosningarrétt, samþykktu drög sem lögð voru til grundvallar. Þetta var vinnuplagg. Þetta var ekki fullbúin stjórnarskrá. Ég held að það sé algengur misskilningur. Það hefur gengið svo langt að ákveðinn maður í Háskóla Íslands hefur kallað þetta valdarán, við skulum hafa það á hreinu. Ég spyr: Var þetta vinnuplagg eða var þetta fullbúin stjórnarskrá sem lögð var til grundvallar í þjóðaratkvæðagreiðslu sem 37% atkvæðisbærra manna samþykktu? Það er eitt.

Hitt varðar loftslagsmálin. Mér heyrðist hv. þingmaður segja að núverandi stjórnvöld væru að reyna að koma allri ábyrgðinni á loftslagsmálum yfir á herðar neytenda. Ég get ekki séð að það sé rétt. Við höfum lagt fram fé og áætlun um orkuskipti. Til er aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Til er loftslagsráð. Stofna á loftslagssjóð. Hér er til frumvarp um ívilnun til fyrirtækja til kolefnisjöfnunar. Ég get ekki séð að það sem ríkisstjórnin hefur gert eða hyggst gera sé brennt því marki að við ætlum að leggja höfuðábyrgðina á herðar neytenda. Þetta er samvinna félagasamtaka, almennings, ríkisstjórnar og sveitarfélaga. Er hv. þingmaður ekki sammála því?